Home / Fréttir / Fylgst með 10 rússneskum hervélum yfir Eystrasalti

Fylgst með 10 rússneskum hervélum yfir Eystrasalti

 

Rússnesk Sukoi-orrustuþota
Rússnesk Sukoi-orrustuþota

Flugmenn Typhoon-orrustuþotna breska flughersins sem sinnt hafa loftrýmisgæslu frá Eistlandi flugu í síðustu viku í veg fyrir 10 rússneskar hervélar í einum leiðangri segir í frétt frá breska varnarmálaráðuneytinu fimmtudaginn 30. júlí.

Bresku þoturnar voru sendar á loft eftir að rússnesku vélarnar sáust í ratsjám NATO. Þær voru þá á alþjóðlegri flugleið yfir Eystrasalti, skammt utan við lofthelgi Eystrasaltsríkjanna.

Um var að ræða fjórar Sukhoi Su-34 orrustuþotur, fjórar MiG-31 orrustuþotur og tvær Antonov An26 flutningavélar. Virtust vélarnar á venjulegu æfingaflugi en allar slíkar æfingar vekja meiri athygli en ella og jafnvel grunsemdir um áreiti vegna spennunnar í Úkraínu.

Breska varnarmálaráðuneytið segir að bresku þoturnar hafi fylgt hinum rússnesku og fylgst með ferðum þeirra.

Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði:

„Enn einu hafa flugmenn hersins og hinar fullkomnu Typhoon-orrustuþotur sannað gildi sitt í þágu sameiginlegra varna NATO. Eftirlit af þessu tagi sannar hve framlag Breta til loftrýmisgæslu á Eystrasalti skipir gífurlega miklu máli og hve miklu skiptir að sýna óskorðan vilja til að verja lofthelgi NATO með bandamönnum okkar.“

Rússneskar vélar hafa flogið nærri lofthelgi Bretlands fyrr á þessu ári, suður með vesturströnd landsins og allt að Ermarsundi. Þá hefur einnig verið flogið í veg fyrir rússneskar sprengjuvélar við Skotland.

Í febrúar 2015 var upplýst að á þeim tæpu fimm árum sem þá voru liðin frá því að David Cameron varð forsætisráðherra hefði breskum hervélum oftar en 40 sinnum verið flogið í veg fyrir rússneskar hervélar sem nálguðust lofthelgi Bretlands.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …