Home / Fréttir / Fylgdarstúlka rússneskra auðmanna segist vita allt um Rússatengsl Trumps

Fylgdarstúlka rússneskra auðmanna segist vita allt um Rússatengsl Trumps

Anastasia Vashukevitj í Tælandi.
Anastasia Vashukevitj í Tælandi.

Fylgdarstúlka, fyrrverandi ástkona auðmanns í Rússlandi, hefur boðist til að leggja fram upplýsingar um tengsl Donalds Trumps við Rússa gegn því að fá hæli sem flóttamaður í Bandaríkjunum.

Frá þessu segir í Jyllands-Posten laugardaginn 3. mars. Í frásögninni segir að Anastasia Vashukevitj hafi snúið sér til bandaríska sendiráðsins í Bangkok, höfuðborg Tælands, og sótt um hæli gegn því að hún segi frá sambandi Trumps við menn í Moskvu.

Konan var handtekin fyrr í vikunni fyrir að starfa ólöglega í Tælandi. Starfsmenn á hóteli í Pataya kölluðu á lögreglu þegar þeir heyrðu undarleg hljóð úr fundarsal þar sem Anastasia Vashukevitj flutti fyrirlestur um kynlíf á fundi með um 40 rússneskum ferðamönnum. Margir voru í bolum með áletruninni „Sex animator“ á ensku og ör sem vísaði niður í klof þess sem klæddist bolnum. Lögreglan sagðist hafa handtekið 10 manns og hefði svipt þau vegabréfsáritun til dvalar í Tælandi. Verða þau í haldi útlendingastofnunarinnar í Bangkok á meðan beðið er ákvörðunar hennar. Rannsókn kæru um að stunda ólöglega vinnu getur tekið allt að 48 daga í Tælandi. Játi hin handteknu að þau hafi brotið af sér kynni máli þeirra að ljúka án þess að ákæra færi fyrir dómara og þau farið úr landi.

Anastasia Vashukevitj er frá Hvíta-Rússlandi. Í febrúar komst hún í fréttir í Rússlandi þegar birtist af henni myndskeið um borð í snekkju með rússneska milljarðamæringnum Oleg Deripaska og Sergej Prikhodko vara-forsætisráðherra.

Forystumaður rússneskra stjórnarandstæðinga, Alexej Navalníj, fann myndskeiðið á Instagram-reikningi Vashukevitjs og birti það til að sanna að Deripaska hefið mútað Prikhodko með lúxusferð og fylgdarstúlkum. Prikhodko er í hópi áhrifamestu stjórnmálamanna í Rússlandi.

Navalníj velti því einnig upp hvort þessir tveir menn gætu verið tengiliðirnir milli Kremlverja og kosningastjórnar Trumps árið 2016. Dró hann þá ályktun vegna þess að Paul Manafort, fyrrv. kosningastjóri Trumps, starfaði á sínum tíma fyrir Deripaska og bauðst til að veita auðmanninum „einka upplýsingar“ í kosningabaráttunni.

Óljóst er hvort Anastasia Vashukevitj ræður yfir einhverjum upplýsingum eða gerir aðeins örvæntingarfulla tilraun til að losna úr haldi í Tælandi. Hún hefur ekki lagt fram nein gögn sem sanna að hún hafi upplýsingar sem skipti máli fyrir þá sem rannsaka afskipti Rússa af bandarísku kosningunum.

„Ég er eina vitnið og týndi hlekkurinn í tengslunum milli Rússa og bandarísku kosninganna – í langri keðju milli Olegs Deripaska, Prikhodkos, Manaforts og Trumps,“ sagði hún í lifandi mynd á Instragram þriðjudaginn 27. febrúar. Virðist myndin tekin í lögreglubíl eftir að hún var handtekin.

„Gegn því að fá aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjanna og að tekin sé ábyrgð á öryggi mínu er ég fús að afhenda Bandaríkjamönnum eða Evrópumönnum eða einhverjum öðrum nauðsynlegar upplýsingar sem geta leyst mig úr tælensku fangelsi,“ er haft eftir henni í The Washington Post.

Prikhodko lýsti stjórnarandstæðingnum Navalníj sem „pólitískum undirmálsmanni“ og fullyrðingar hans ættu „ekkert skylt við raunveruleikann“. Varaforsætisráðherrann hefur einnig kært Vashukevitj fyrir að rjúfa friðhelgi einkalífs síns og að skipan dómara hefur Instagram fjarlægt myndirnar.

Aðalræðismaður Rússa í Tælandi sagði við rússnesku fréttastofuna Ria Novosti að handtöku Vashukevitj mætti rekja til þess að hún starfaði ólöglega í Tælandi.

Á Instagram-myndskeiðinu fullyrðir Vashukevitj hins vegar að Rússar hafi krafist þess að hún yrði tekin föst vegna myndskeiðsins með Deripaska og Prikhodko. Hún verði líklega framseld til Rússlands og sett þar í fangelsi.

„Please USA,“ segir hún í ákalli á ensku: „Bjargaðu okkur frá Rússlandi. Allt er þetta pólitísk kúgun.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …