
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafa ákveði að hittast sagði í yfirlýsingu frá Kreml að kvöldi laugardags 28. janúar eftir að forsetarnir höfðu talað saman í síma í 50 mínútur.
Í yfirlýsingunni stendur: „Pútín og Trump voru sammála um að gefa fyrirmæli um að leitað yrði að dagsetningu og staða fyrir einkafund þeirra.“ Fyrir tveimur vikum birtust lausafréttir um að rætt hefði verið um Reykjavík sem hugsanlegan fundarstað.
Forsetarnir samþykktu einnig að vinna saman í baráttunni gegn Daesh (Ríki íslams) og treysta efnahagstengsl landa sinna.
Litið var á símtalið sem fyrsta skrefið í nýju samskiptaferli stjórna Bandaríkjanna og Rússlands. Trump og Pútín hafa talað hlýlega hvor til annars undanfarna mánuði og verið sammála í neikvæðri afstöðu til Baracks Obama, forvera Trumps.
Fylgst var náið með símtalinu í Washington og höfuðborgum Evrópu af þeim sem óttast að Trump gangi til móts við Rússa til dæmis með afnámi viðskiptaþvingana sem komu til sögunnar við innlimun Rússa á Krímskaga fyrir tæpum þremur árum.
Talsmaður Trumps sagði eftir símtalið:
„Þetta jákvæða símtal var markvert upphaf í því skyni að bæta samband Bandaríkjanna og Rússlands sem þarfnast endurbóta. Bæði Trump og Pútín vona að eftir símtalið í dag geti ríkin tvö snúið sér hrattað því að takast á við hryðjuverk og önnur mikilvæg málefni sem varða bæði ríkin.“
Talsmaður Pútíns sagði meira: „Forsetarnir ræddu um að koma á fót raunhæfri samræmingu á aðgerðum milla Rússa og Bandaríkjamanna í því skyni að vinna sigur á Daesh og öðrum hryðjuverkahópum í Sýrlandi.“
Í frásögnum af símtalinu var ekki minnst beint á viðskiptaþvinganir. Talsmaður Pútíns sagði þó að báðir aðilar hefðu „lagt áherslu á mikilvægi þess að endurvekja gagnkvæm og hagstæð viðskipta- og efnahagstengsl milli viðskiptalífs beggja landa“.