Home / Fréttir / Fundu ekki nógu þykkan ís fyrir nýja ísbrjótinn

Fundu ekki nógu þykkan ís fyrir nýja ísbrjótinn

Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, í brúnni á nýja ísbrjótnum.
Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, í brúnni á nýja ísbrjótnum.

Nýjasti kjarnorkuknúni ísbrjótur Rússa, Arktika, hefur lokið reynslusiglingu á Norðurpólinn. Ferðin á pólinn gekk vel nema ísinn var hvergi nógu þykkur til að láta að það reyna að brjóturinn kæmist í gegnum 3 m þykkan ís.

Oleg Shchapin er fulltrúi þeirra annast framtíðarrekstur ísbrjótsins. Hann var í reynslusiglingunni og sagði við rússnesku fréttastofuna TASS:

„Við eigum enn eftir að gera tilraunir í ísnum, hugsanlega á þessu ári, vegna þess að til þessa hafa tilraunirnar ekki tekist, þykkt íssins var 1,1 til 1,2 metrar. Hann var þunnur og laus í sér og veitti ísbrjótnum enga mótstöðu. Við leituðum að þriggja metra þykkri ísbreiðu en fundum enga.“

Nú er öll Norðurleiðin fyrir norðan Síberíu íslaus frá Karahafi til Beringssunds. Aldrei áður hafa borist fréttir af jafnþunnum og veikum ís við Norðurpólinn og núna.

Arktika hélt frá Baltic-skipasmíðastöðinni í St. Pétursborg 22. september beint á Norðurpólinn og þaðan til heimahafnar sinnar í Múrmansk, þangað kom skipið 12. október.

Mikhail Mishustin, forsætisráðherra Rússlands, var síðan í Múrmansk miðvikudaginn 21. október þegar fulltrúi skipasmíðastöðvarinnar afhenti skipið formlega að lokinni reynslusiglingunni.

Í desember verður Arktika sendur til starfa á Norðurleiðinni. Alls verða fimm ísbrjótar af þessari gerð til þjónustu fyrir þá sem sigla Norðurleiðina. Múrmansk er heimahöfn þeirra allra en athafnasvæði skipanna er að mestu á austurhluta leiðarinnar.

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …