Home / Fréttir / Fulltrúadeild franska þingsins herðir útlendingalögin

Fulltrúadeild franska þingsins herðir útlendingalögin

 

Úr neðri deild franska þingsins.
Úr neðri deild franska þingsins.

 

Fulltrúadeild franska þingsins samþykkti sunnudaginn 22. apríl breytingu á útlendingalögum sem herðir skilyrði fyrir hælisvist í landinu, stuðlar að hraðari afgreiðslu hælisumsókna og auðveldar brottflutning fólks.

Hart var deilt um frumvarpið sem sætti gagnrýni frá mannréttindasamtökum og leiddi til áður óþekkts ágreinings í þingflokki Emmanuels Macrons forseta sem sigraði í þingkosningunum fyrir tæpu ári.

Frumvarpið var samþykkt með 228 atkvæðum gegn 139 en 24 þingmenn skiluðu auðu. Sunnudaginn 22. apríl höfðu umræður um málið staðið í 61 klukkustund og fluttar voru um 1.000 breytingartillögur við það.

Meðal þeirra sem skiluðu auðu voru 14 þingmenn úr LRM-flokknum, flokki Macrons. Öldungadeild þingsins tekur málið til meðferðar í júní.

Stjórn Macrons lagði frumvarpið fram í febrúar og var litið á það sem lið í almennri viðleitni forsetans í kosningabaráttunni fyrir ári til að laða til sín fylgi kjósenda sem annars hefðu hallað sér að keppinauti hans Marine Le Pen úr Þjóðfylkingunni.

Í lögunum er yfirvöldum veitt heimild til að hafa börn í hópi hælisleitenda í varðhaldi í allt að 90 daga á meðan þau bíða brottflutnings. Fréttaskýrendur benda á að hörð ákvæði af þessu tagi séu ekki bundin við Frakkland. Í Ungverjalandi hafi yfirvöld 14 ára og eldri í haldi í flutningagámum við landamæri Serbíu.

Framkvæmdastjórn Evrópu segir að innilokun barna sé leið til að forða þeim frá smyglurum og mansali. Í ESB-lögum er heimild til allt að 18 mánaða varðhaldi. Framkvæmdastjórnin hefur sent frá sér leiðbeiningar um hvernig best sé að vernda börn.

Frestur til að skila umsókn um hæli í Frakklandi er styttur úr 120 dögum í 90 og áfrýjunarfrestur vegna hælisumsóknar er styttur úr 30 dögum í 15 daga.

Bent er á að með þessu sé þrengt að rétti hælisleitenda og segja samtökin Human Rights Watch – Mannréttindavaktin – að vegna þessa skapist hætta á að fólki sem þarfnist alþjóðlegrar verndar sé brottvísað.

Í fyrra sneri franski hælisumsókna-dómstóllinn við umsóknum rúmlega 8.000 manna sem hafði verið hafnað á lægra stjórnsýslustigi. Um 100.000 sóttu um hæli í Frakklandi í fyrra.

Nýju lögin auðvelda þeim sem hafa fengið stöðu flóttamanns að afla sér vinnu.

Lögin koma til móts við þá kröfum innan ESB að tryggt sé að þeir sem fá ekki hæli séu sendir til síns heima. Nú er talið að aðeins um 36% þeirra snúi aftur út af ESB-svæðinu.

„Við verðum að auka verulega fjölda þeirra sem sendir eru til baka, öll aðildarríkin verða einfalda brottvísunarkerfið. Það nægir ekki að taka ákvörðun um brottvísun það verður að framfylgja henni,“ sagði Dimitris Avramopoulos, útlendingamálastjóri ESB, í september 2017.

 

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …