Home / Fréttir / Fullkomnustu orrustuþotur heims af F35B-gerð koma í stöð breska flughersins

Fullkomnustu orrustuþotur heims af F35B-gerð koma í stöð breska flughersins

Fyrsta F-35 orrustuþotan lendir á Bre
Fyrsta F-35 orrustuþotan lendir á Bre

 

Ný kynslóð af hljóðfráum, torséðum orrustuvélum bættist í breska flugherinn miðvikudaginn 6. júní þegar fyrstu fjórar þoturnar af F-35B-gerð lentu í flugherstöðinni Marham í Norfolk eftir flug frá Bandaríkjunum.

Bretar fengu vélarnar afhentar tveimur mánuðum fyrr en ætlað var en þær hafa um nokkurt skeið verið til reynsluflugs í Bandaríkjunum auk þess sem flugmenn breska flughersins og breska flotans hafa verið þjálfaðir í flugherstöðinni í Beaufort í Suður-Karólínu. Þaðan var vélunum fjórum flogið miðvikudaginn 6. júní til varanlegra nota í Bretlandi.

John Butcher, foringi 617 flugsveitarinnar, lenti fyrstur. Hann sagði flugið yfir Atlantshaf hafa verið tíðindalaust í góðu veðri. Allt hefði gengið eins og í sögu og vélarnar staðist prófið með prýði.

Bretar ákváðu á sínum tíma að verja 9,1 milljarði punda á einum áratug til að kaupa 48 af þessum mest þróuðu orrustuþotum heims. Ákvörðunin hefur sætt gagnrýni bæði vegna kostnaðar og hæfni vélanna.

Af fréttum má ráða að kostnaður við hverja vél sé allt að 150 milljónum punda þegar tillit er tekið til alls umbúnaðar.

Sir Stephen Hillier, yfirmarskálkur breska flughersins, sagði þetta „sögulegan dag“ enda birtust þarna vélar sem mundu verða þungamiðjan í flugstyrk Breta næstu áratugi.

Flugmenn frá breska flughernum og breska flotanum stjórna vélunum enda verða þær notaðar bæði frá flugvöllum á landi og flugmóðurskipum, þar á meðal breska flugmóðurskipinu Queen Elizabeth. Verður stofnað til æfinga um borð í því næsta haust.

Von er á fimm F-35-vélum til viðbótar frá Bandaríikjunum til Marham í lok júlí eða byrjun ágúst.

Fyrir nokkrum vikum notaði ísraelski flugherinn F-35 orrustuþotur í fyrsta sinn til árás á skotmörk í Sýrlandi. Þurrkuðu Ísraelar þá á einni nóttu allar stöðvar Írana í nágrenni við landamæri sín.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …