
Artful, þriðji árásar-kafbáturinn af Astute-gerð í breska flotanum, hefur verið lagt við festar í heimahöfn sinni í Clyde-firði í Skotlandi. Þaðan verður hann sendur í reynslusiglingar áður en hann verður tekinn formlega í notkun síðar á þessu ári.
Um er að ræða hæstþróaða kafbát sem Bretar hafa nokkru sinni eignast en hann er 97 m langur og 7.400 lestir og var smíðaður í Barrow-in-Furness í Cumbria.
Heimahöfn bresku kafbátanna er vinnustaður 6.700 hermanna og borgaralegra starfsmanna og er ætlunin að stækka hann enn og starfsmenn þar verði 8.200 árið 2022. Er þetta stærsti einstaki vinnustaður í Skotlandi en skoskir þjóðernissinnar hafa horn í síðu hans og boða flutning breskra kjarnorkukafbáta frá Skotlandi fái landið sjálfstæði.
Breska stjórnin stefnir hins vegar að því að allir breskir kafbátar eigi heimahöfn í Clyde-firði, skammt fyrir utan Glasgow, frá og með árinu 2020.
Artful er knúinn kjarnorku og er unnt að sigla bátnum í kafi umhverfis jörðina. Súrefni fyrir áhöfnina er framleitt úr sjó á meðan báturinn er á ferð. Hið eina sem stytt getur úthald hans í kafi er skortur á vistum eða úthaldi áhafnarinnar.
Hér er um að ræða fyrsta kafbát Breta sem ekki er búinn sjónpípu. Þess í stað er notuð sérstök mynd-tækni. Myndir berast inn í stjórnstöð kafbátsins með ljósleiðurum. Hlustunarbúnaður um borð í kafbátnum er hinn fullkomnasti sem smíðaður hefur verið og jafngildir afl sónarsins vinnslugetu 2.000 fartölva.
Þótt kafbátar af Astute-gerð su 50% stærri en forverar þeirra af Trafalgar-gerð er mun verra að hafa upp á þeim neðansjávar en forverum þeirra vegna þess hve hljóðlátir þeir eru.