
Evrópska landamærastofnunin, Frontex, segir að COVID-19-faraldurinn hafi svo að segja stöðvað för ólöglegs farandfólks til Evrópu.
Í apríl voru aðeins 900 ólöglegir aðkomumenn skráðir af Frontex. Það jafngildir 85% samdrætti og er lægsta tala síðan Frontex hóf að taka saman þessar upplýsingar árið 2009. Segir stofnun að þessi umskipti megi rekja til kórónuveirunnar.
Mest var fækkun fólks á leið yfir austurhluta Miðjarðarhafs. Þar voru aðeins 40 skráðir í apríl, 99% fækkun frá í mars. Frá janúar til apríl 2020 hafa 11.200 ólöglegar ferðir yfir Schengen-landamæri verið skráðar, 18% færri en á sama tíma í fyrra. Flestir þeirra sem í hlut áttu voru Afganir.
Í apríl fækkaði þeim um 29% sem reyndu að komast ólöglega til Evrópu yfir miðhluta Miðjarðarhafs. Þar er heildartalan frá áramótum tæplega 4.100 manns.
Frá mars til apríl fækkaði þeim um 82% sem fóru ólöglega yfir vesturhluta Miðjarðarhafs, þeir voru tæplega 100. Flestir voru frá Marokkó og Alsír.
Innan við 100 reyndu að komast ólöglega inn í miðhluta Evrópu um vesturhluta Balkanskaga í apríl. Það er 94% færri en í mars. Á hinn bóginn hefur fjöldi þeirra sem völdu þessa leið vaxið um 60% fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við mánuðina í fyrra – þeir eru nú um 6.000.
Fyrstu fjóra mánuði 2020 reyndu alls 26.650 að komast ólöglega til Evrópu sem er næstum sami fjöldi og á sama tíma í fyrra. Nú er um 118.000 ólöglegir aðkomumenn í Grikklandi en þeim fjölgaði aðeins um 40 í apríl