Home / Fréttir / Frontex – Landamærastofnun Evrópu – kynnt á fjölsóttum Varðbergsfundi

Frontex – Landamærastofnun Evrópu – kynnt á fjölsóttum Varðbergsfundi

Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, Landamærastofnunar Evrópu,.
Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, Landamærastofnunar Evrópu,.

 

Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, flutti fyrirlestur á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 4. febrúar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Ræddi hann um Frontex og landamærastjórn.

Hann ræddi straum farand- og flóttafólks til Scehengen-svæðisins og lýsti breytingum í því efni á árinu 2015 þegar fjöldi þessa fólks margfaldaðist, einkum þeirra sem leita frá Tyrklandi til Grikklands. Birti hann einnig tölur um fjölda þeirra sem komið hafa á fyrstu vikum ársins 2016 og er augljóst að síst dregur úr straumi fólksins.

Hann sagði Frontex hafa skyldur sem lytu að greiningu og áhættumati auk þess að bregðast við tilmælum um aðstoð bærust þau frá einhverju aðildarríkjanna. Frontex hefði ekki starfsmenn á eigin vegum heldur yrði að leita til aðildarþjóða. Nú væri svo komið að þrátt fyrir sjö útköll eftir fólki fengist ekki mannskapur til að sinna Frontex-verkefnum þar sem aðstoðar væri þörf.

Þá ræddi hann einnig um hlut Frontex við að skipuleggja endursendingu fólks til uppruna- eða heimalands.  Sé fólki brottvísað yfirgefa flestir viðkomandi land af fúsum vilja. Þeir sem neita hins vegar að fara að fyrirmælum um brottvísun eru að lokum fluttir á brott með valdi. Það fer eftir lögum hvers einstaks lands hvernig komist er að niðurstöðu sem leiðir til brottvísunar og einnig hvaða yfirvald hefur framkvæmd brottvísunar með höndum.

frontex_logo__europa.eu

Frontex hefur hins vegar það hlutverk að aðstoða aðildarríki við endursendingu, til dæmis með því að samræma og skipuleggja hvernig og hvenær að henni er staðið. Stofnunin sendi til dæmis flugvél til nokkurra landa til að safna saman fólki sem á að flytja til sama móttökulands. Stendur stofnunin að öllu leyti eða hluta undir kostnaði við aðgerðina, það er leigu flugvélar, ferðakostnað fylgdarmanna, lækna og eftirlitsmanna auk fæðiskostnaðar.

Körner ræddi einnig nýja ESB-löggjöf sem er í smíðum og miðar að því að koma á fót Evrópskri landamæra- og strandgæslustofnun á grunn Frontex. Hann sagði að starfsmenn Frontex væru ekki með í ráðum við smíði þessarar löggjafar. Ráðherraráð ESB hefði sagt að þar sem fjallað væri um framtíð stofnunarinnar væru starfsmenn hennar vanhæfir til að fjalla um málið.

Körner lagði áherslu á að ekkert yrði gert í nafni hinnar nýju stofnunar í nokkru landi án samþykkis stjórnvalda viðkomandi lands. Á hinn bóginn yrði meiri þungi í tilmælum um aðgerðir sem byggðar væru á sameiginlegu hættumati Það hefði til dæmis dregist alltof lengi að Grikkir færu fram á aðstoð þótt við blasti að þeir hefðu enga stjórn á landamærum sínum.

Þegar hann var spurður hvort hann teldi að hin nýja stofnun mundi ráða við að stöðva fólksstrauminn til Grikklands sagði hann svo ekki vera sama hvað miklir peningar yrðu í boði. Menn þyrftu ekki að gera annað en það sem hann hefði gert fyrir skömmu, að fara til grísku eyjanna undan strönd Tyrklands til að átta sig á að ógjörningur væri að hafa hemil á straumi fólks þaðan frá eyjunum, það yrði ekki gert nema frá Tyrklandi.

Fundurinn var fjölsóttur. Fyrr um daginn átti Körner fund með utanríkismálanefnd alþingis. Hann hittir hér embættismenn innanríkisráðuneytisins, heimsækir Landhelgisgæslu Íslands og embætti ríkislögreglustjóra.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …