Home / Fréttir / Frönsk yfirvöld herða viðbúnað af ótta við hryðjuverk

Frönsk yfirvöld herða viðbúnað af ótta við hryðjuverk

Police Swat Team at Work Going out of the vehicle and moving forward the danger.

Frönsk yfirvöld herða öryggisgæslu við kirkjur, moskur og aðra staði til trúariðkana. Gerald Darmanin innanríkisráðherra segir „mjög mikla“ hættu á hryðjuverkum. Geopólitísk spenna hefur aukist eftir að franskur sögukennari var gerður höfðinu styttri fyrir að sýna nemendum sínum skopmyndir af Múhammeð spámanni.

Franskir diplómatar leitast við að sefa reiði og mótmæli gegn Frökkum í Tyrklandi og Arabalöndum sem birtast meðal annars í hvatningu stjórnvalda til almennings um að kaupa ekki vörur frá Frakklandi. Á þann hátt sé unnt að svara andstöðu Emmanuels Macrons Frakklandsforseta við íslam eftir morðið á kennaranum 16. október. Bandamenn Frakka í Evrópu styðja Macron en í löndum múslima láta menn í ljósi reiði yfir að hann taki til varna fyrir skopmyndir af spámanninum en múslimar telja þær helgispjöll.

Allra heilagra messa er um næstu helgi og hvetur franska lögreglan til þess að almenningur og sérstaklega kirkjugestir hugi vel að öryggi sínu og vísar þar meðal annars til hótana á netinu í garð kristinna manna og hófsamra múslima.

Gerald Darmanin innanríkisráðherra sagði í viðtali við France-Inter-útvarpið að hætta á hryðjuverkum væri „mjög mikil vegna þess að við eigum marga óvini innan lands og utan“.

Hann áréttaði áætlanir um að brjóta upp hópa múslima sem boða hættuleg öfgasjónarmið eða njóta of mikils fjárstuðnings frá útlöndum. Hann sakaði Tyrki og Pakistani sérstaklega um að „blanda sér í innri mál Frakka“.

„Það er háð barátta gegn íslamskri hugmyndafræði. Við megum ekki hörfa,“ sagði hann og lagði jafnramt áherslu á að múhammeðstrú ætti það rými sem hún þyrfti innan franska lýðveldisins.

Almennt er litið á samfélag múslima í Frakklandi sem hófsamt og innan þess eru einstaklingar sem hvetja til rósemdar, þeir verja málfrelsið sem myrti kennarinn var að kynna nemendum sínum en kallaði yfir hann morðhótanir og kostaði hann síðan lífið.

Spenna milli stjórnvalda Frakka og Tyrkja hefur magnast stig af stigi undanfarna mánuði vegna framgöngu Tyrkja í Sýrlandi, Líbíu og Nagorno-Karabak í Kákasusfjöllum. Það sem gerst hefur eftir morðið á sögukennaranum hefur orðið til þess að spenna setur nú svip á afstöðu fleiri ríkja í Evrópu og í löndum múslima.

Stofnað hefur verið til mótmæla gegn Frökkum í löndum frá Bangladesh til Gaza. Í verslunum í Kuweit voru franskar vörur teknar úr hillum, til dæmis jógúrt og vatnsflöskur. Háskólinn í Katar aflýsti franskri menningarviku og þingmenn í Pakistan samþykktu ályktun þar sem mótmælt er skopmyndum af spámanninum.

Balazs Ujvaris, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, sagði þriðjudaginn 27. október að viðskiptabann á franskar vörur verði aðeins til þess að spilla samskiptum ESB-ríkja við Tyrki, fjarlægja þá enn frekar en áður frá ESB.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …