
Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Afríka er næst stærsta heimsálfan og sú næst fjölmennasta. Í fimmtíu og fjórum ríkjum, og tíu öðrum landsvæðum, búa yfir 1,2 milljarðar manna. Af fréttum að dæma mætti halda að ástand mála í álfunni væri ein samfelld hörmungarsaga. Vissulega kljást mörg ríkin við alvarleg vandamál. Þetta á sérstaklega við um löndin fjögur sem eru á horni Afríku (e. Horn of Africa); Djíbútí, Sómalíu, Erítreu og Eþíópíu. Á núnda áratug síðustu aldar var hræðileg hungursneyð í Eþíópíu sem leiddi m.a. til þess að tónlistarmaðurinn Bob Geldof skipulagði hljómsveitina Band Aid sem mikið var í fréttum á sínum tíma. Áratug síðar varð síðan hungursneyð í Sómalíu og mikið fjallað um landið í fjölmiðlum. Sú umfjöllun snerist ekki síst um örlög tveggja þyrluáhafna á vegum Bandaríkjahers, er sendar voru til landsins til að aðstoða við hjálparstarfið en þyrlur þeirra voru skotnar niður. Atvikið kallast á ensku “Black Hawk Down”.
Eþíópía
Því er ánægjulegt að föstudaginn 11. október tilkynnti norska nóbelsnefndin að forsætisráðherra Eþíópíu, Abiy Ahmed Ali, hefði hlotið friðarverðlaunin í ár. Ahmed er 42 ára gamall og tilheyrir Oromo þjóðfélagshópnum sem gegndi lykilhlutverki í mótmælaöldu sem reið yfir landið fyrir nokkrum árum. Kröfðust mótmælendur þess að stjórnskipan ríkisins yrði færð í frjálsræðisátt og fór svo að forsætisráðherra landsins sagði af sér. Í framhaldinu, nánar tiltekið þann 2. apríl í fyrra, tók Abiy Ahmed Ali við embættinu.
Hann hefur bætt ástand mála í landinu og hefur m.a. sleppt pólitískum föngum, rekið embættismenn sakaða um spillingu og aukið viðskiptafrelsi. Ekki eru hins vegar allar fréttir frá landinu góðar. Þegar stjórnin í Addis Ababa slakaði á klónni hófust deilur þjóðarbrotanna níu sem búa þar aftur. Átök hafa brotist út og nú eru rúmlega tvær og hálf milljón landsmanna á vergangi. Óttast sumir að ríkið gliðni í sundur líkt og Júgóslavía á 10. áratugnum.
Ahmed fær nóbelinn fyrir að stuðla að friði milli Erítreu og Eþíópíu. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur fjallað um málið og er greinin að mestu leytii reist á umfjöllun þess. Ríkin tvö höfðu deilt nánast allt frá því Erítrea hlaut sjálfstæði frá Eþíópíu árið 1993. Braust út styrjöld milli ríkjanna sem leiddi til dauða tuga, jafnvel hundruð þúsunda manna. Henni lauk árið 2000 en spenna var áfram í samskiptum þeirra. Það er allt þangað til Abiy Ahmed Ali tók við stjórnartaumunum í Eþíópíu.
Ahmed er með doktorsgráðu í þeirri grein stjórnmálafræði sem kennir hvernig eigi að leiða átök til lykta (e. peace and security issues) og hann notaði þekkingu sína á þessu sviði þegar hann tilkynnti að hann vildi ná sáttum við nágranna sína í norðri. Létu stjórnvöld í Eþíópíu þau boð út ganga að þau myndu afhenda Erítreu landamærabæinn Badme sem hafði verið bitbein ríkjanna síðan árið 2000. Þetta leiddi til þíðu í samskiptum ríkjanna og í júlí 2018 hittust leiðtogar þeirra og ákváðu að slíðra sverðin.
Erítrea
Vonast var til að friðarviðræður ríkjanna tveggja og umbætur í Eþíópíu leiddu til þess að leiðtogi Erítreu, Isaias Afwerki, slakaði á klónni þar í landi. Einræðisstjórnin sem þar ræður ríkjum er svo slæm að landið er oft kallað Norður-Kórea Afríku. Syndaskrá stjórnarinnar er löng. Hún hefur hrakið hundruð þúsunda á vergang bæði vegna þess að efnahagsástandið er afar bágborið og vegna hrottaskapar gagnvart þegnum landsins.
Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna segja að framganga stjórnvalda jaðri við glæp gegn mannkyni. Landsmenn geta ekki lýst vilja sínum í þingkosningum. Til þeirra hefur ekki verið boðað síðan landið hlaut sjálfstæði. Fjölmiðlar sinna ekki eftirlitshlutverki sínu enda eru þeir allir undir stjórn ríkisins. Ekki er útlit fyrir að Afwerki hyggist snúa af braut einræðis og óstjórnar.
Erítrear sem búsettir eru erlendis hafa að undanförnu reynt að vekja athygli á örlögum landsins á samfélagsmiðlum, óvíst er um áhrif þess. Mögulega mun þörf landsins á erlendum fjárfestingum og fjárhagsaðstoð stuðla að breytingum þar.
Skiptar skoðanir
Skiptar skoðanir eru um hvort varanlegur friður komist á milli Eþíópíu og Erítreu, beri ríkin gæfu til þess mun það hafa víðtæk áhrif. Bætt staða mála á svæðinu dregur úr flóttamannastraumi til Evrópu, margir af þeim sem sækja um hæli þar koma frá þessum löndum. Friðsamleg samskipti Eþíópíu og Erítreu myndu líka leiða til þess að auðveldara yrði að takast á við spillingu, deilur og óstjórn í nágrannaríkjunum. Abiy Ahmed er þegar farinn að beita sér á þeim vettvangi.
Við Íslendingar erum á meðal þeirra sem myndu hagnast á meiri stöðugleika í ríkjunum. Ísland rekur sendiráð í Úganda, sem er stutt frá Eþíópíu og Erítreu, og stefnan er sett á að auka umsvif Íslendinga í Afríku. Verkefnið yrði auðveldara ef friðartímabil rynni upp í norðaustanverðri álfunni.