Home / Fréttir / Friðarskjali Kínverja tekið með fyrirvara

Friðarskjali Kínverja tekið með fyrirvara

Wang Yi og Vladimir Pútin í Moskvu 23. febrúar 2023.

Kínversk stjórnvöld birtu föstudaginn 24. febrúar 2023 skjal sem ætlað er stuðla að vopnahléi í Úkraínu.  Margir vestrænir sérfræðingar og embættismenn hafa fyrirvara þegar rætt er um hugmyndir í skjalinu vegna þess hve Kínverjar eru nánir samstarfsfélagar Rússa og þess vegna lítt hæfir sem sáttasemjarar.

Kínverjar völdu eins árs afmælisdag innrásar Rússa í Úkraínu til að leggja fram 12 liða tillögu sem miðar að því að binda enda á vestrænar refsiaðgerðir gegn Rússum, opna undankomuleiðir fyrir almenna borgara, tryggja reglulegan útflutning á úkraínsku korni, að öryggistryggingar komi til sögunnar fyrir Rússa og dregið sé úr líkum á notkun kjarnavopna.

Í skjalinu er gert ráð fyrir að skref fyrir skref verði dregið úr átökum til að greiða fyrir friðarviðræðum. Það var fljótt bent á að þarna væri ekki allt sem sýndist þar sem textinn gæfi til kynna að Vesturlönd ýttu undir átökin, þar með ætti að minnka ábyrgð Rússa.

Wang Yi, æðsti maður kínverskra utanríkismála, var í Moskvu fimmtudaginn 23. febrúar og hitti Vladimir Pútin forseta. Þeir fögnuðu „nýrri umgjörð“ samskipta stjórna sinna og boðað var að Xi Jinping Kínaforseti mundi heimsækja Rússland í vor.

Í skjalinu er einkum að finna gamalkunn kínversk stefnuviðhorf til stríðsins eins og að öll ríki verði að tryggja „fullveldi, sjálfstæði og óskertan landsyfirráðarrétt á virkan hátt“.

Orðalag í ýmsum greinum virðistst sérstaklega beint að Vesturlöndum eins og þegar hvatt er til brotthvarfs frá „kalda stríðs hugarfari“. Þetta séu frasar sem kínverska utanríkisráðuneytið noti gjarnan til að lýsa íhlutun bandarískra stjórnvalda í málefni annarra ríkja og stækkun  NATO.

Nokkrum vikum áður en Rússar hófu innrás sína hittust Xi og Pútin  og fögnuðu nýju „takmarkalausu“ samstarfi milli þjóðanna. Í stríðinu sjálfu hafa Kínverjar lagt sig fram um að gera ekkert til stuðnings Rússum sem vekti hörð viðbrögð á Vesturlöndum. Þeir hafa veitt Rússum mikilvæga efnahags- og diplómatíska aðstoð , meðal annars með því að kaupum á orku og fegra stöðu Rússa með hlutdrægri lýsingu á gangi stríðsins á alþjóðavettvangi eins og innan Sameinuðu þjóðanna.

Kínverjar sátu í fjórða sinn hjá á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fimmtudaginn 23. febrúar þegar greidd voru atkvæði um að Rússar ættu að draga herafla sinn frá Úkraínu – en það var samþykkt með 141 atkvæði.

Sérfræðingar benda á að skjal Kínverja sé þannig úr garði gert að lítlar líkur séu á að það breyti nokkru í Úkraínu. Skjalið hafi líklega helst þann tilgang að stilla Kína upp sem mótvægi við Bandaríkin á alþjóðavettvangi.

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði að kínverska skjalið breytti í raun engu varðandi Úkraínustríðið. Úkraína hefði ekki ráðist á Rússland. Bandaríkin hefðu ekki ráðist á Rússland. Fyrir Rússum hefði vakað að afmá Úkraínu af landakortinu.

Jorge Toledo, sendiherra ESB í Kína, sagði blaðamönnum 24. febrúar eftir að skjalið birtist að það lýsti afstöðu Kína en ekki friðaráætlun. ESB mundi kynna sér efni þess.

Við gerð skjalsins höfðu Kínverjar ekkert samráð við Úkraínustjórn. Dmíjtro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraíniu, sagði Wang hafa kynnt sér „lykilþætti kínversku friðaráætlunarinnar“ þegar þeir hittust öryggisráðstefnunni í München á dögunum.

Sendiherra Úkraínu í Peking sagi skjalið „lofa góðu“. Vonandi hvettu Kínverjar Rússa líka til að hætta stríðinu og heimkalla herlið sitt.

Sagt var frá því í þýska vikuritinu Der Spiegel sem dagsett er 23. febrúar að ónafngreindir heimildarmenn segðu Rússa í viðræðum við kínverskt fyrirtæki um kaup á miklu magni af árásardrónum.

Áður hafði Antony Blinken varað Wang Yi við afleiðingum þess að Kínverjar létu Rússum í té vopn.

 

Heimild: RFE/RL

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …