Home / Fréttir / Fréttir um stórtjón Rússa við upphaf stórsóknar – Rússar gæla við stríðslok

Fréttir um stórtjón Rússa við upphaf stórsóknar – Rússar gæla við stríðslok

Úkraínskir hermenn á vígvellinum.

Úkraínuher sendir aldrei frá sér neinar tilkynningar um einstakar aðgerðir eða orrustur. Nú birtast hins vegar víða fréttir um blóðbað sem helst megi líkja við það „þegar að læmingjahjarðir hlaupa fyrir björg“.

Fréttirnar snúast um að í hörðum bardögum um bæinn Vuhledar í Donetsk héraði í austurhluta Úkraínu hafi Rússar misst heilt stórfylki í einni orrustu.

Þar sé líklega um að ræða 5.000 manna úrvals stórfylki rússneskra landgönguliða nr. 155 en allir liðsmenn þess hafi fallið, særst eða verið teknir til fanga.

Þó eru ekki nema fáeinir dagar síðan á samfélagsmiðlum birtist myndskeið af Vladimir Pútin Rússlandsforseta þar sem hann fer lofsamlegum orðum um landgönguliðana í þessu sama stórfylki sem „berjist hetjulega á þessari stundu“.

Hafi Rússar í raun misst 5.000 hermenn – og meira en 100 bryndreka eða farartæki – er þar um að ræða alstærsta tjón þeirra í einni orrustu frá því að stríðið hófst.

Blaðamaður Berlingske í Danmörku leitar þriðjudaginn 14. febrúar álits hjá Flemming Splidsboel, sérfræðingi við Dönsku utanríkismálastofnunina (DIIS), sem segir:

„Sé þetta rétt er um þýðingarmikinn og stóran sigur Úkraínumanna að ræða. Þetta eru háar tölur um mannfall. Þetta eru góð upphafstíðindi fyrir Úkraínuher þegar við því er búist að stórárás sé yfirvofandi. Takist á fyrstu stigum að hrekja Rússa til baka er það góð byrjun fyrir Úkraínumenn.“

Hann segir hins vegar ekki um nein þáttaskil í stríðinu að ræða og spáir því að hart verði sótt að Úkraínuher á næstunni. Sigur þeirra við Vuhledar breyti engu um að stórárás kunni að vera í aðsigi sem gæti orðið Úkraínumönnum „erfið“.

Flemming Splidsboel fylgist náið með því sem sagt er í rússneskum fjölmiðlum og segir að þar birtist fréttir um að „á næstunni gerist eitthvað“.

Hann segist halda að afmælisdags innrásarinnar, 24. febrúar, verði minnst á einhvern hátt. Vegna dagsins sé þrýstingur á Pútin meiri en venjulega. Í nokkrum rússneskum miðlum sé rætt um hugsanlegar leiðir til að binda enda á átökin.

Flemming Splidsboel segir að sumir rússneskir miðlar nefni 9. maí sem hugsanlegan lokadag stríðsins. Þá verði unnt að efna til sigurgöngu vegna þess.

Rússar líta á 9. maí sem helgidag, þá fögnuðu þeir sigri yfir Þýskalandi nazismans í annarri heimsstyrjöldinni. Var þá mikil sigurganga í Moskvu.

„Í rússneskum miðlum er látið að því liggja að þennan dag kunni stríðinu að verða lokið. Þótt hvergi sé að sjá neinar mótaðar hugmyndir um hvernig stríðinu ljúki eru þó birtar nokkrar jákvæðar sviðsmyndir um tímasetningar stríðslokanna. Af þeim má ráða að meðal almennings gæti vaxandi óþolinmæði vegna þess hve stríðið dregst á langinn.“

Boðað hefur verið að Pútin ávarpi þjóðina 21. febrúar og eftir það liggur kannski betur fyrir um hvað hann er að hugsa.

Flemming Splidsboel álítur að í ræðunni vilji Pútin helst geta gefið til kynna að það sjáist fyrir endann á stríðinu.

Stórsókn Rússa kunni að vera liður í því:

„Það verður mikilvægt fyrir Pútin að hughreysta þjóðina á einhvern hátt eða gefa henni von. Eitthvað sem réttlætir stríðið. Rússarnir vilja fá á tilfinninguna að lokin séu innan seilingar.“

Heimild: Berlingske

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …