
Í tilkynningu frá Úkraínuher, sem sagt er frá í vestrænum miðlum að morgni mánudags 2. janúar 2023, segir að 400 nýliðar í her Rússa hafi farist að kvöldi gamlársdags í bráðabirgða herskála í Makiivka í Donetsk í austurhluta Úkraínu. Þá segir einnig að um 300 hafi særst. Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að 63 hafi fallið.
Á vefsíðu RFE/RL segir að verði þessi tala staðfest sé um að ræða mesta mannfall Rússa í einni árás frá því að þeir hófu innrás sína fyrir rúmum 10 mánuðum. Talið er að bandarískt HIMARS flugskeyti hafi verið notað til árásarinnar. Þetta verði Úkraínumönnum og stuðningsþjóðum þeirra hvatning til að sækja af meiri þunga gegn Rússum.
RFE/RL segist ekki geta staðfest sannleiksgildi tilkynningar Úkraínuhers. Daniil Bezsonov, háttsettur embættismaður á vegum Rússa í Donetsk, sagði hins vegar á Telegram að flugskeytið hefði hitt skotmark í Makiivka mínútu eftir að árið 2023 gekk í garð.
RFE/RL segir að á samfélagsmiðlum birtist frásagnir sem beri vott um að höfundar, vinveittir Rússum, hafi orðið fyrir reiðarslagi vegna árásarinnar. Hún var gerð á verkmenntaskóla sem Rússar höfðu breytt í herskála fyrir nýliða.
Í tilkynningu hers Úkraínu sem birt var á samfélagsmiðlinum Telegram sunnudaginn 1. janúar sagði að um 400 manns hefðu fallið í hernumdum verkmenntaskóla, PTU-19, í bænum Makiivka. Þá hefðu um 300 hermenn særst.
Í tilkynningunni sagði að sprenging hefði orðið „vegna hirðuleysis við meðferð hitunartækja, lélegra öryggisráðstafana og reykinga á ómerktum svæðum“.
RFE/RL segir að hefðbundið sé að Úkraínumenn noti orðalag af þessu tagi eftir meiriháttar atvik og gefi þar með til kynna að þolandinn beri ábyrgðina á því hve illa fór.
Í færslu Bezonosovs á Telegram sagðist hann vona að rússneskum herforingjum sem hefðu ákveðið að nota þennan stað til að safna saman hermönnum og hýsa þá „verði refsað“.
Á síðunni Tsgrad sem styður Rússa sagði að „hundruð“ hefðu dáið og á óopinberri síðu var sagt að 500 hermenn hefðu týnt lífi. Annars staðar var sagt að manntjónið hefði verið „umtalsvert“.