Home / Fréttir / Frelsissveitir ráðast inn í Rússland frá Úkraínu

Frelsissveitir ráðast inn í Rússland frá Úkraínu

Drónar frá Úkraínu voru sendir á mörg skotmörk í Rússlandi þriðjudaginn 12. mars og kviknuðu eldar í tveimur stórum olíubirgðastöðvum auk þess sem þrír vopnaðir hópar brutust inn á rússneskt yfirráðasvæði.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að gerð hefði verið árás á níu svæði í Rússlandi með drónum frá Úkraínu auk þess sem úkraínskar skotflaugar hefðu verið skotnar niður yfir Belgorod-héraði snemma 12. mars.

Ráðuneytið sagði að árásirnar hefðu beinst gegn nokkrum orkustöðvum, þar á meðal Norsi-olíuhreinsunarstöð LUK-olíufélagsins, fjórðu stærstu hreinsistöð Rússlands, í Nizhníj Novgorod-héraði um 775 km frá landamærum Úkraínu. Annar dróni kveikti eld í olíugeymslu í Orjol, 116 km frá Úkraínu.

Þennan sama dag hófu Frelsishersveit Rússlands, Sjálfboðaliðaher Rússlands og Síberíuherfylkið, sem Rússar hliðhollir Úkraínu hafa stofnað til baráttu við hlið Úkraínuhers, árásir inn yfir landamæri Rússlands.

Hóparnir birtu myndskeið sem þeir segja að sýni hermenn sína innan Rússlands. Fréttastofur segjast þó ekki geta sannreynt gildi myndanna.

Um er ræða tvo staði í Rússlandi, Lozova Rudka í Belgorod-héraði og Tetkino í Kúrsk-héraði. Frelsishersveit Rússlands sagðist „alfarið“ stjórna Tetkino og bætti við á Telegram að hersveitir Vladimirs Pútíns hefðu farið með hraði úr þorpinu og skilið eftir sig þungavopn.

Andrij Jusov, talsmaður leyniþjónustu Úkraínuhers, sagði að þessir hópar störfuðu algjörlega sjálfstætt og undir eigin stjórn innan Rússlands.

Frá Kreml bárust fréttir um að rússneskir hermenn hefðu hrundið árás þessara rússnesku vígamanna og leikið þá mjög grátt. Ekki hefur heldur tekist að sannreyna þessi orð.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði að árásirnar hefðu verið gerðar um klukkan 03.00 að nóttu á Moskvutíma og hefði innrásarliðið notað skriðdreka og brynvarin ökutæki fyrir hermenn sem gerðu árásir á nokkra staði í Rússlandi. Rússneskir hermenn hefðu beitt skotflaugum, stórskotaliði og flugvélum til að hrinda árásinni af höndum sér.

Í næturárás réðust Rússar á fjölbýlishús í bænum Kupjansk í Úkraínu. Neyðarþjónusta Úkraínu sagði að sprengjur Rússa hefðu valdið umtalsverðu tjóni og kveikt nokkra elda, engar fréttir hefðu þó verið um mannskaða.

Í Ternopil-héraði í vesturhluta Úkraínu sagði herstjórnin að rússneskur dróni hefði valdið innviðatjóni en ekki mannskaða.

Úkraínuher sagðist hafa skotið niður 17 af 22 drónum sem Rússar hefðu sent inn yfir Úkraínu.

Liðsmenn Síberíuherfylkisins í Rússlandi skoruðu á íbúa Rússneska sambandsríkisins að hunsa rússnesku forsetakosningarnar sem hefjast föstudaginn 15. mars. Þær væru aðeins blekkingarleikur. Vopnin ein dygðu til að koma á breytingum í Rússlandi.

Rússar mættu ekki aðeins láta sig dreyma um að losna undan einræði Pútins þeir yrðu að grípa til aðgerða gegn því til að draumarnir rættust.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …