Home / Fréttir / Frekar Mólotoff-kokkteill en bóluefni

Frekar Mólotoff-kokkteill en bóluefni

_113910642_gettyimages-1228010229

Um allan heim er keppst við að framleiða COVID-19-bóluefni. Vladimir Pútin Rússlandsforseti tilkynnti þriðjudaginn 11. ágúst að Rússar stæðu skrefi framar en aðrir.

Rússar segjast hafa framleitt til heimabrúks bóluefni sem standist reglur þeirra og kunni að verða til almennrar sölu á næstu mánuðum. Pútin segir að bóluefnið hafi gengið undir hvers kyns nauðsynleg öryggispróf. Sérfræðingar í heilbrigðismálum lýsa efasemdum vegna þess hraða sem verið hefur á gerð bóluefnisins.

Fréttastofa Euronews náði tali af Peter Pitts, fyrrverandi aðstoðarforstjóra bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar, US Food and Drug Administration (FDA), og lýsti hann efasemdum sínum vegna tilkynningar Rússa:

„Það liggja ekki fyrir nein gögn, allt gegnsæi skortir, í Rússlandi er engin FDA-stofnun, sagan sýnir að þeir samþykkja lyf og bóluefni án lítilla eða engra prófana. Þetta er frekar Mólotoff-kokkteill en bóluefni á þessu stigi, við þurfum einmitt ekki á neinu slíku að halda í heimsbaráttunni gegn COVID-19.“

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) brást við tilkynningu Rússa með því að leggja áherslu á „strangar aðferðir“ sem ber að virða við útgáfu á bóluefnisleyfi.

Í svari til Euonews sagði WHO að stofnunin vissi að Rússar hefðu skráð bóluefni í samræmi við reglur eigin yfirvalda og stofnunin fagnaði „öllum framgangi við rannsóknir og þróun COVID-19- bóluefnis“. Það ætti ekki að flýta bóluefnarannsóknum nema innan viðurkenndra verklagsreglna á hverju stigi þróunarinnar til að tryggja að ekkert bóluefni færi í framleiðslu án þess að það væri bæði öruggt og virkt.

Þá kom fram að WHO hefði verið í sambandi við rússneska vísindamenn og vænti þess að fá að fara yfir niðurstöður tilrauna þeirra.

Um þessar mundir er vitað um 167 lífvænlega bóluefna-rannsakendur í heiminum og 28 þeirra séu komnir á „klínískt stig“.

Peter Pitts telur að COVID-19-bóluefni verði framleidd fyrir ólíka landahópa og ekki ætti að beina of mikilli athygli að tilkynningu Rússa.

„Við megum ekki láta uppslátt af þessu tagi trufla áhuga okkar á sigurvegaranum sem er traust, hágæða, þaulreynt og nákvæmlega skrásett bóluefni. Það yrði okkur til skammar ef við létum þessa tilkynningu tefja fyrir okkur eitt augnablik í sókninni eftir öruggu, vísindalega unnu bóluefni.“

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …