
Björgunarmenn hafa lokið við að lyfta norsku freigátunni KNM Helge Ingstad á strandstað og flytja hana í flotkví. Freigátan sökk fyrir fjórum mánuðum eftir árekstur við olíuskip og hefur marað hálf í kafi síðan skammt frá Bergen.
Þeir sem unnu að björguninni voru starfsmenn Scaldis Salvage & Marine Contractors NV, sem er belgískt útibú frá Jan De Nul Group, Herbosch-Kiere and DEME, í samvinnu við BOA Offshore.
Aðgerðinni lauk sunnudaginn 3. mars. Starfsmenn Scaldis sögðu að þeir hefðu beitt byltingarkenndri aðferð með því að beita samtímis tveimur kranaskipum félagsins sem eru sérhönnuð til að lyfta miklum þunga. Skipin eru Rambiz og Gulliver, hvort um sig búið tveimur krönum.
Í tilkynningu Scaldis segir að með því að beita skipunum samtímis megi lyfta samtals 7.300 lesta þunga. Þetta hafi gert starfsmönnum fyrirtækisins kleift að lyfta 133 m langri freigátunni sem er 5.500 lestir í heilu lagi. Með því að samhæfa kranana og beita þeim samtímis sé unnt að lyfta flaki með samfelldu átaki og setja það á réttan kjöl.
Áður en hafist var handa við að lyfta skipinu voru öll flugskeyti og allt eldsneyti fjarlægt úr því. Kafarar settu 16 keðjur undir skipið en togað var í þær þegar skipinu var lyft úr sjónum.
Eftir að skipið var komið upp sigldu kranaskipin með það hangandi í keðjum og vírum til næstu hafnar. Þar var skipið sett í flotkví sem lyftist með Helge Ingstad í miðjunni þegar dælt var úr kjölfestutönkum hennar. Kranaskipin héldu við freigátuna þar gengið hafði verið frá öllum festingum á þann veg að flytja mætti hana í flotkvínni.
Freigátan KNM Helge Ingstad rakst á olíuskipið Sola TS skammt frá Sture olíustöðinni í Hjeltefjörden í Noregi 8. nóvember 2018. Skömmu síðar sökk skipið hallandi í hlið fjarðarins. Freigátan skemmdist mikið og áhöfnin yfirgaf hana.
Um borð í freigátunni voru 137 sjóliðar og 23 í áhöfn Sola TS. Enginn slasaðist alvarlega.
