
Frönsku vinstriflokkarnir komust að samkomulagi miðvikudaginn 4. maí um kosningabandalag til að stöðva framgang flokks Emmanuels Macrons forseta í þingkosningunum 12. og 19. júní 2022 og hindra að umdeild umbótaáform forsetans nái fram að ganga.
Það var ekki fyrr en tímafrestur til samkomulags flokkanna var liðinn að kvöldi þriðjudags 3. maí sem Sósíalistaflokkurinn (PS) náði að stilla strengi sína með Græningjum og Kommúnistaflokknum (PCF) undir forystu flokksins lengst til vinstri, Uppreisnargjarnt Frakkland (La France Insoumise, LFI), undir formennsku Jean-Lucs Mélenchons, forsætisráðherraefnis bandalagsins. Hann fékk 22% í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna 10. apríl 2022.
Í sameiginlegri yfirlýsingu PS og LFI sagði að flokkarnir stefndu að því að fá kjörna þingmenn í meirihluta kjördæma til að hindra að Emmanuel Macron gæti framkvæmt „óréttláta og ósvífna stefnu“ sína, auk þess ætluðu flokkarnir að sigra öfgahægri frambjóðendur.
Flokksráð Sósíalistaflokksins kemur saman fimmtudaginn 5. maí til að ræða og afgreiða samkomulagið. Ráðandi öfl innan flokksins segja að allt sé enn óvíst um stuðning við það meðal flokksmanna. Verði samkomulagið samþykkt gengju franskir vinstrimenn sameinaðir til kosninga í fyrsta sinn í 20 ár.
Einn þingmanna LFI sagði að um „sögulegt“ samkomulag væri að ræða sem tryggði hverjum flokki sjálfræði innan „sameiginlegs stefnuramma“.
Þungavigtarmaður meðal sósíalista François Hollande, fyrrv. forseti Frakklands, hefur lýst andstöðu sinni við samkomulagið. Hann segir að tenging við LFI og aðra vinstrisinna kunni að leiða til þess að Sósíalistaflokkurinn „verði að engu“.
Sameiningarþörf franskra vinstrisinna er knúin áfram af franska tveggja umferða kosningakerfinu. Með því að taka saman höndum í stað þess að ganga sundraðir til kosninga geta flokkarnir skipt kjördæmum á milli sín og stillt upp eins og talið er sigurstranglegast á hverjum stað.
Í lokadrögum samkomulagsins er gert ráð fyrir að 100 kjördæmi verði undir forystu Græningja, 70 Sósíalistaflokksins og 50 Kommúnistaflokksins. Alls sitja 577 þingmenn í neðri deild franska þingsins.
Jean-Luc Mélenchon sagði skilið við Sósíalistaflokkinn árið 2008 eftir að honum mistókst að fá samþykkta þar gagnrýni á hollustu flokksins við aðildina að ESB. Hann vill „óhlýðnast“ reglum sambandsins um fjárlög og samkeppnismál og er andvígur grundvallarreglum um frjálsan EES-markað.
Nýja kosningabandalagið kallast Þjóðareining um félags- og umhverfismál. Enn hefur ekki náðst full sátt innan þess um stefnuna gagnvart ESB.
Frá 1958 hafa franskir sósíalistar tvisvar sinnum átt forseta, François Mitterrand og François Hollande. Sósíalistaflokkurinn hefur jafnan lagt mikla áherslu á samstarf Evrópuþjóða innan ESB.
Það er erfiður biti að kyngha fyrir marga sósíalista að Jean-Luc Mélenchon verði forystumaður þeirra í þingkosningunum. Þeir eiga hins vegar ekki margra kosta völ. Frambjóðandi þeirra í forsetakosningunum í apríl 2022, Anne Hidalgo, borgarstjóri í París, fékk aðeins 1,75% atkvæða þannig að samningsstaða þeirra í viðræðunum við Mélenchon og félaga hans er nánast enginn.