Home / Fréttir / Franskir herforingjar boða valdarán til bjargar Frakklandi

Franskir herforingjar boða valdarán til bjargar Frakklandi

xxl

Franska ríkisstjórnin hefur fordæmt opið bréf frá um 1.000 starfandi hermönnum og um 20 fyrrv. hershöfðingjum þar sem segir að stefni í „borgarastríð“ í landinu vegna trúarlegrar öfgahyggju.

„Ofstækisfullir baráttumenn“ eru sakaðir um að skapa sundrung innan samfélagsins og sagt er að islamistar sölsi undir heil landsvæði.

Bréfið birtist í hægrisinnuðu tímariti 21. apríl, þegar 60 ár voru liðin frá misheppnuðu valdaráni í Frakklandi gegn Charles de Gaulle. Vildu herforingjar ná völdum til að hindra sjálfstæði Alsír sem þá var frönsk nýlenda.

„Þetta eru alvarlegir tímar, Frakkland er í hættu,“ segja bréfritarar.

Marine Le Pen sem skipar sér lengst til hægri í frönskum stjórnmálum og ætlar enn á ný að bjóða sig fram í forsetakosningunum 2022 lýsir stuðningi við hershöfðingjana fyrrverandi.

Florence Palry hermálaráðherra sagði hins vegar á Twitter: „Tvær óumbreytanlegar grundvallarreglur gilda um athafnir manna í hernum þegar kemur að stjórnmálum: hlutleysi og hollusta.

Ráðherrann hafði áður varað þá í hópi bréfritara sem starfa nú í hernum við, þeim yrði refsað fyrir að brjóta í bága við lög sem krefjast pólitísks hlutleysis af þeim.

Í bréfinu birtast varnaðarorð til Emmanuel Macrons Frakklandsforseta, ríkisstjórnar hans og þingmanna vegna „nokkurra banvænna ógna“ gagnvart Frakklandi og frönsku þjóðinni, þar á meðal séu „islamismi og útborga-flökkulýðurinn“. Notað er franska orðið banlieue sem má þýða sem úthverfi eða útborg, innflytjendahverfin á jaðri franskra borga eða umhverfis þær.

Í bréfinu segir að „ákveðinn and-rasismi“ sundri samfélögum og stuðli að „kynþátta-stríði“ með því að ráðist sé á styttur og minnismerki franskrar sögu.

Þá er ríkisstjórnin einnig sökuð um að reyna að nota lögregluna sem „staðgengla og blóraböggla“ með því að beita henni af hörku gegn vinsælum „gulvestungum“ og mótmælaaðgerðum þeirra undanfarin ár.

„Það gefst enginn tími til að draga gagnaðgerðir á langinn, sé það gert kallar morgundagurinn á borgarastríð til að binda enda á vaxandi upplausn og mannfall – sem verður á ábyrgð ykkar – þegar þúsundir týna lífi,“ segir í lok bréfsins.

Fréttaskýrendur benda á að hafa verði í huga að 20 fyrrverandi hershöfðingjar séu aðeins örlítið brot alls þess fjölda fyrrverandi hershöfðingja sem séu á eftirlaunum í Frakklandi. Hvað sem því líði sé birting bréfsins til marks um hættulega tíma og stuðningur Marine Le Pen gefi vísbendingu um baráttumál í komandi kosningabaráttu um forsetaembættið.

Florence Palry hermálaráðherra hefur óskað eftir að þeir sæti refsingu sem starfa í hernum og rita undir bréfið. Í útvarpsviðtali minnti ráðherrann á örlög fyrrverandi hershöfðingja í frönsku útlendingahersveitinni sem var sviptur tign vegna þátttöku í mótmælum gegn farandfólki í Calais.

Marine Le Pen fagnaði bréfi hermannanna og hvatti þá til að ganga til liðs við sig í „baráttunni um Frakkland“. Viðbrögð hennar voru birt sama dag og lögreglukona var stungin til bana í lögreglustöð í suðvestur París. Lögregla rannsakar málið sem hugsanlegt hryðjuverk.

Hugh Schofield, fréttaritari BBC í París, segir að margir franskir fjölmiðlamenn lýsi undrun yfir að Marine Le Pen styðji hershöfðingjana fyrrverandi og boðskap þeirra. Það hafi verið sérgrein föður hennar að viðra sig upp við hugsanlega valdaránsmenn. Hann hafi staðið þeim nærri fyrir 60 árum sem vildu bola Charles de Gaulle frá völdum. Hann hafi löngum fiktað við lögbrot. Slíkt falli ekki að ímyndinni sem Marine Le Pen vilji skapa sér og flokki sínum Þjóðhreyfingunni – í stað Þjóðfylkingarinnar áður.

Sumir telji hana hafa tekið feilspor að þessu sinni. Það verði mun auðveldara nú en áður að saka Marine Le Pen um að vera dæmigerðan franskan öfgasinna, arftaka föður síns, Vichy og alls þess sem því fylgir.

Marine Le Pen hefur undanfarið reynt að höfða til stærri hóps kjósenda en áður með því að falla frá andstöðu sinni við ESB og evruna. Þeir sem heilluðust af henni vegna þess kunna nú að skoða hug sinn að mati Schofields hjá BBC.

Hann segir að hitt kunni að ráða hjá Marine Le Pen að hún eigi ekki annan kost en að styðja bréfritarana. Það sé fráleitt að nokkur telji í alvöru að herinn taki völdin í Frakklandi og þess vegna verði hún ekki sökuð um að hvetja til uppreisnar. Að baki bréfinu búi skoðun sem falli að hennar eigin sjónarmiðum og að hennar mati sjónarmiðum þögla meirihlutans í Frakklandi og þess vegna geti hún varla hafnað bréfinu.

 

Heimild: BBC

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …