
Franski herinn hefur lengi verið talinn einn sá öflugasti í heimi, ekki síst franski sjóherinn. Frakkar halda til dæmis úti flugmóðurskipi sem er á færi fárra þjóða. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa Frakkar átt þrjú flugmóðurskip. Fyrstu tvö skipin af svokallaðri Clemenceau-gerð voru í flotanum frá sjöunda áratugnum og fram undir aldamót. Þá tók við flugmóðurskipið Charles de Gaulle. Eina flugmóðurskipið utan skipa Bandaríkjaflota sem er kjarnorkuknúið.
Kafbátaflotinn
Kafbátafloti Frakka er einnig öflugur. Þeir eiga fjóra kjarnaflaugakafbáta (e. missile submarines) af Triomphant-gerð sem teknir voru í notkun í lok síðustu aldar og á fyrsta áratug þessarar. Eru þeir önnur stoð fælingarstefnu Frakklands. Flugvélar sem geta borið kjarnavopn mynda hina stoðina.
Einnig eiga Frakkar nokkra árásarkafbáta sem eru kjarnorkuknúnir. Um þá er fjallað í nýlegri grein í vefútgáfu bandaríska tímaritsins The National Interest sem fjallar um utanríkismál. Þar kemur fram að fyrstu árásarkafbátar Frakka knúnir kjarnorku hafi verið af Rubis-gerð. Þeir voru teknir í notkun á síðustu tveimur áratugum 20. aldar. Áætlað var að flotinn fengi átta báta en sex voru smíðaðir.
Nú hefur verið ákveðið að skipta Rubis-bátunum út fyrir svokallaða Barracuda-báta en nafnið kemur frá barrakúða tegundinni sem eru rándýr úr ættbálki borrafiska Þegar er búið að sjósetja fyrsta bátinn af þessari tegund var honum gefið nafnið Suffren, er búist við að byrjað verði að prófa hann á þessu ári. Áætlað er að Barracuda-bátarnir verði alls sex og allir verði smíðaðir fyrir árið 2030. Ekki er víst að sú áætlun gangi eftir enda hefur hún nú þegar raskast. Helsta ástæðan er að illa gekk að hanna kjarnakljúfinn sem knýja á bátana áfram.
Nýju Barracudaöbátarnir eru mjög tæknivæddir. Þeir eru afar hljóðlátir. Hljóðsjá þeirra þykir frábær. Kafbátarnir bera ýmis hátæknivopn. Frá þeim má skjóta fjölda nýstárlegra tundurskeyta. Úr sömu skotstöðvum verður einnig hægt að skjóta stýriflaugum sem eykur mjög notagildi kafbátanna.
Síðast en ekki síst má nota kafbátana í ýmis verkefni sem eru ný fyrir árásarkafbáta. Rými er um borð fyrir fjarstýrða dvergkafbáta. Einnig verður pláss í hverjum báti fyrir tólf sérsveitarmenn sem setja má á land með leynd nánast hvar sem er. Þetta staðfestir það sem áður var vitað að árásakafbátar nýtast til ýmissa leynilegra sérverkefna.
Söluvara
Franski flotinn notar ekki einn Barracudaöbátana í framtíðinni. Hönnuð hefur verið útgáfa af þeim sem gengur fyrir díselvél . Hefur ástralski flotinn fest kaup á teikningum af þessum bátum sem kallast á ensku Shortfin-barracuda. Ástralir stefna á að smíða tólf báta af þessari gerð, vinna við þá á þessu ári eða því næsta.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson