
Florian Philippot, sem var hægri hönd Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, í fyrra hefur stofnað eigin flokk undir heitinu: Les Patriots (Föðurlandsvinir). Stofnfundur flokksins var í norðurhluta Frakklands sunnudaginn 18. febrúar.
Illindi eru milli Marine Le Pen og Florians Philippots eftir að upp úr samstarfi þeirra slitnaði. Hann lýsir henni sem „ömurlegri og fastri í leðju“ hún segir hins vegar að hann „hugsi aðeins um sjálfan sig“.
Á vefsíðu Euronews segir að það sem helst skilji á millk Þjóðfylkingarinnar og Föðurlandsvina sé afstaðan til Evrópusambandsins. Föðurlandsvinir vilja segja skilið við ESB en Þjóðfylkingin hefur mildað kröfu sína um úrsögn úr evru-samstarfinu.
Marine Le Pen breytti um stefnu gagnvart evrunni eftir að hún tapaði í forsetakosningunum í fyrra gegn Emmanuel Macron.
Philippot er sakaður um að hafa ekki annað fram að færa en afrit af stefnu Þjóðfylkingarinnar á þeim tíma sem hann starfaði innan hennar. Stjórnmálafræðingar segja að Föðurslandsvinir fylgi einnig stefnu sem sjá megi hjá Jafnaðarmannaflokkum í Evrópu.
Dorit Geva, sérfræðingur í frönskum stjórnmálum við Mið-Evrópu-háskólann í Búdapest, segir við Euronews að Philippot
hafi að fordæmi Nigels Farage og UKIP í Bretlandi safnað stefnumálum frá hægri og vinstri og gert að sínum í von um að ná til sem flestra kjósenda.
Farage hefur lýst yfir stuðningi við Philippot og félaga hans á myndskeiði sem Föðurlandsvinir settu á Facebook-síðu sína um helgina. Farage segist hafa fylgst með frönskum stjórnmálum undanfarin 20 ár og aldrei fyrr hafi hann séð flokk boða eins skýrt að Frakkland eigi að vera sjálfstætt ríki sem setji sér eigin lög, stjórni sjálft landamærum sínum og búi við eigin mynt.
Philippot segir að úrsögn úr ESB, Frexit, sé ein Frakklandi til bjargar. Það sé blekking að láta eins og Frakkar geti breytt ESB:
„Framtíðin felst í föðurlandsást, friður felst í föðurlandsást, í þessu felst eining, nú gefst sögulegt tækifæri til að sameina leifarnar til vinstri og leifarnar til hægri um eina hugsjón: Frakkland.“
Philippot situr á ESB-þinginu fyrir Frakkland ásamt tveimur flokksbræðrum sínum og í flokki hans er einng þingmaður á franska þinginu. Sagt er að 3.000 manns hafi skráð sig í flokkinn.
Geva telur Föðurlandsvini ekki endilega eiga bjarta framtíð. Flokkar sem helgi sig aðeins efnahags- og fjármálum höfði ekki mjög til kjósenda. Flokkur sem hafi það að meginmarkmiði að breyta efnahags- og peningastefnu Frakklands með því að kveðja evruna sé ekki líklegur til að laða fólk á fjöldafundi á götum úti. Ef til vill takist að vekja áhuga fólks á Frexit því að margir óttist aðildina að ESB en fólk sé einnig raunsætt og vilji ekki taka órökstudda áhættu.