Home / Fréttir / Franska stjórnmálakerfið í uppnámi vegna stórsigurs flokks Marine Le Pen

Franska stjórnmálakerfið í uppnámi vegna stórsigurs flokks Marine Le Pen

Jordan Bardella ávarpar frösnku þjóðina eftir stórsigur flokks hans í fyrri umferð þingkosninganna 30. júní 2024.

Í annað skipti á innan við mánuði urðu miðjuöflin í Frakklandi að baki Emmanuel Macron forseta fyrir miklu áfalli sunnudaginn 30. júní. Þá fóru þau mjög illa í þingkosningum þar sem Þjóðarhreyfing (RN) Marine Le Pen vann góðan sigur í fyrri umferð kosninganna.

Macron greip til þess skyndiráðs að kvöldi 9. júní að rjúfa þing og boða til kosninga eftir að hafa tapað illa fyrir RN í kosningum þann dag til ESB-þingsins. RN fékk þá tvöfalt fleiri atkvæði en miðjubandalag Macrons.

Stjórnmálaskýrendur sögðu ákvörðun Macrons annaðhvort bragð í von um að fá hreinan meirihluta á þingi, hann tapaði honum fyrir tveimur árum, eða áhættusaman leik sem gæti leitt til þess að RN yrði í fyrsta sinn forystuflokkur í ríkisstjórn.

Úrslit fyrri umferðar þingkosninganna 30. júní urðu þau að RN fékk 33,15% atkvæða, Nýja fjöldafylking vinstrisinna (NFP) fékk 27,99%, miðjuhreyfing Macrons, Ensemble, fékk 20,76%, mið-hægri Lýðveldissinnar (LR) fengu 9,7% og ýmsir hægri sinnaðir frambjóðendur (10,23%).

Á franska þinginu sitja 577 þingmenn og eins og atkvæði féllu 30. júní er talið að RN kunni aðeins að skorta níu þingmenn til að hljóta hreinan meirihluta á þingi – RN þarf 289 þingmenn til að ná meirihluta, fyrir kosningar átti hann 88 þingmenn.

Alls fengu 76 frambjóðendur meira en 50% í fyrri umferð kosninganna og þar með bindandi kosningu, er Marine Le Pen, leiðtogi RN, í þeim hópi ásamt 38 öðrum frá RN. Vinstrisinnar, NFP, fengu 32 og miðjubandalag Macrons tvo.

Í ræðu sem Marine Le Pen flutti að kosningum loknum sagðist hún stefna að hreinum meirihluta í seinni umferð kosninganna til að tryggja Jordan Bardella, 28 ára formanni flokksins, embætti forsætisráðherra.

Bardella lofaði í ræðu sem hann flutti eftir að sigur RN í fyrri umferðinni varð ljós að hann yrði „forsætisráðherra allrar frönsku þjóðarinnar“. Hann myndi sýna stjórnarandstöðunni virðingu, myndi eiga samtöl við aðra og hefði samhug þjóðarinnar ávallt í fyrirrúmi. Í sömu andrá fór hann hörðum orðum um bandalag Macrons og Nýju fjöldafylkinguna (NFP).

Bardella sagði að önnur umferð kosninganna myndi marka ein mestu þáttaskil í sögu fimmta franska lýðveldisins. Hershöfðinginn Charles de Gaulle lagði grunn að því árið 1958. Þeir sem eru í forystu Lýðveldisflokksins telja sig varðmenn framlags de Gaulles til franskra stjórnmála.

Fylgi RN nú er allt annað og meira en í þingkosningunum 2017 þegar flokkurinn fékk 13% og 2022 þegar hann fékk 22% í fyrri umferðinni.

Stjórnmálaskýrendur segja úrslitin nú sýna að kjósendur skammist sín ekki lengur fyrir að styðja flokkinn sem er útmálaður af andstæðingum hans sem öfgaflokkur vegna útlendingahaturs. Áður hafði flokkurinn horn í síðu evrunnar og aðildar Frakka að ESB. Nú segist flokkurinn ætla að berjast fyrir umbótum á ESB „innandyra“ í sambandinu.

Útreiðin sem Emmanuel Macron forseti og miðjubandalagið að baki honum fékk sést vel af því að þingmönnum sem styðja forsetann fækkar ef til vill um 190 og verða þeir aðeins 60 til 90 þegar upp er staðið 7. júlí. Ólíklegt er að Macron og menn hans fái úrslitaítök á þingi og því verði forsetinn að sætta sig við að andstæðingar hans sitji í ríkisstjórn út forsetakjörtímabilið til 2027. Þá verður Macron ekki í endurkjöri. Marine Le Pen ætlar hins vegar að bjóða sig fram til forseta í þriðja sinn og hefur aldrei verið sigurstranglegri.

Það liðu aðeins fáeinar mínútur frá því að útgönguspár vegna kosninganna sýndu sigur RN þar til vinstrisinnaðir stjórnmálamenn gengu fram fyrir skjöldu og hvöttu til þess að til yrði „Lýðveldisfylking“.

Þeir hétu því að afturkalla framboð sinna manna sem lentu í þriðja sæti í fyrri umferðinni til að útiloka dreifingu atkvæða meðal andstæðinga RN.

Gabriel Attal, sem Macron skipaði nýlega forsætisráðherra, hvatti í ræðu að kvöldi sunnudags alla kjósendur miðjubandalagsins til að forðast eins og heitan eldinn að veita RN stuðning.

Stjórnmálaskýrendur segja að líklegast sé að RN fái hreinan meirihluta á þingi ef hver fylking heldur fast í eigin frambjóðendur þar sem þrír geta orðið í kjöri sunnudaginn 7. júlí. Telja þeir því að Lýðveldisfylking af einhverju tagi minnki líkur á hreinum meirihluta RN. Með öllu er óljóst hvort tekst að mynda slíka fylkingu því að miðjumenn og mið-hægrimenn hafa álíka mikla skömm á ýmsum meðal vinstrisinna og flokksmanna RN sem segjast föðurlandsvinir en ekki hægri-öfgamenn.

Kjörsókn var mikil í kosningunum 30. júní, 66,7%. Í þingkosningunum 2017 og 2022 náði hún ekki 50%.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …