Home / Fréttir / Franska stjórnin segir sarín-gas hafa verið notað í Sýrlandi

Franska stjórnin segir sarín-gas hafa verið notað í Sýrlandi

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi.

Franska utanríkisráðuneytið hefur skýrt frá því að sarín-gas hafi verið notað í loftárás á bæinn Khan Sheikhoun í Sýrlandi 4. apríl 2017. Um hafi verið að ræða gas af sömu gerð og áður hafi verið notað í Sýrlandi. Stjórn Sýrlands hafnar ásökunum um að hún hafi staðið að árásinni.

Franska varnarmálaráðið kom saman til fundar miðvikudaginn 26. apríl. Að fundinum loknum sendi Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakka, frá sér tilkynningu þar sem fram kom að eiturefnið sarín hafi orðið meira en 80 manns að bana í árásinni á Khan Sheikhoun í Idlib-héraði Sýrlands.

„Samskonar sarín var notað 4. apríl og í árásinni sem var gerð á Saraqeb,“ segir í tilkynningu en sá nær er einnig í Idlib-héraði.

Ayrault sagði að með því að greina sýni af árásarstaðnum í Khan Sheikhoun hafi verið „tekin af öll tvímæli um“ að þarna hefði verið notað sarín. Þá væri einnig „hafið yfir allan vafa“ að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og stjórn hans bæru ábyrgð á árásinni.

„Aðferðin ber með sér handbragð ríkisstjórnarinnar og með vísan til þess getum við ákvarðað hver ber ábyrgð á árásinni,“ sagði franski ráðherrann.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …