Franska ríkisstjórnin hefur frestað um sex mánuði að hækka eldsneytisskatta. Boðaðar hækkanir um næstu áramót urðu til mestu mótmælaaðgerða í Frakklandi í hálfa öld. Edouard Philippe forsætisráðherra ávarpaði þjóðina í sjónvarpi þriðjudaginn 4. desember og hvatti til þess að gulvestungar, mótmælendur og aðgerðasinnar, héldu að sér höndum.
Forsætisráðherrann sagði engan skatt svo mikilvægan að sundra ætti þjóðinni með honum.
„Þetta er fyrsta skref en sættum okkur ekki við brauðmola,“ sagði Benjamin Cauchy, einn forystmanna mótmælenda.
Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðarhreyfingarinnar (áður Þjóðfylkingarinnar) sagði á Twitter: „Frestun skatta er til athugunar. Frestun er aldrei annað en frestun.“
Saksóknaraembættið í París hefur hafið rannsókn á því sem lýst er sem „ofbeldi manna sem fara með opinbert vald“ eftir að myndskeið birtist á samfélagsmiðlum sem sýndi átta lögreglumenn lemja mann sem tók þátt í mótmælaaðgerðum laugardaginn 1. desember.
Þennan laugardag og um helgina var kveikt í nokkrum tugum bifreiða og nokkrum verslunargluggum við breiðgötuna Champs Elysées. Sigurboginn var útataður af veggjakroti. Innan dyra í boganum var allt brotið og bramlað, meðal annars höfuð af Napóleon-styttu. Talið er að tjónið þarna nemi um einni milljón evra.
Á leiðtogafundi G20 ríkjanna í Argentínu laugardaginn 1. desember sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti: „Ég sætti mig aldrei við ofbeldi. Enginn málstaður dugar til að réttlæta árás á yfirvöld, að greipar séu látnar sópa um fyrirtæki, að vegfarendum og blaðamönnum sé ógnað eða Sigurboginn smánaður.“
Stefnt var að því að hækka lítra af bensíni um 4 evru-sent í um 1.46 evrur, 209 ísl. kr. Dísellítrinn hefði hækkað aðeins meira.
Einnig var ákveðið að fresta boðuðum hækkunum á rafmagni og gasi og hertu öryggiserftirliti á bifreiðum.
„Þessar ákvarðanir gilda frá þessari stundu og þær ættu að stuðla að ró í landinu,“ sagði forsætisráðherrann og hvatti til „raunverulegra samtala um öll kvörtunarefni undanfarinna vikna“.
Fyrstu viðbrögð gulvestunga voru að þeir mundu láta að sér kveða í París um næstu helgi. Svör ríkisstjórnarinnar yrðu að vera öflugri og markvissari.