Home / Fréttir / Frans páfi vekur enn máls á þriðju heimsstyrjöldinni í ræðu í Sarajevo

Frans páfi vekur enn máls á þriðju heimsstyrjöldinni í ræðu í Sarajevo

Frans páf
Frans páfi

Frans páfi var í Sarajevo í Bosíu-Herzegóvínu laugardaginn 6. júní. Í ræðu sinni þar vakti hann enn á ný máls á að „þriðja heimsstyrjöldin“ væri nú háð „í bútum“ eins og hann orðaði það. Hann hvatti af meiri þunga en áður til „samtals“ milli manna af ólíku þjóðerni, frá ólíkum menningarheimum og ólíkrar trúar. Án þess ríkti „skrílsræði“ og „ofsi haturs“.

Frans páfi vakti í fyrsta skipti máls á „þriðju heimsstyrjöldinni sem háð er í bútum“ haustið 2014. Hefur hann varað oft við þessari hættu síðan. Hernaðarátökum lauk í Sarajevo fyrir 20 árum en í ræðunum sem páfi flutti í borginni var honum tíðrætt um orðið frið. Í því fælist fyrirheit en því væri sífellt andmælt meðal manna og illvirkja. Fyrir sumum vekti það eitt að skapa stríðsanda og stofna til stríðs einkum með því að „kalla fram átök milli ólíkra menningarheima“ öðrum væru hernaðarátök hugleikin vegna vopnasölu.

Um 60.000 manns hlýddu á páfa við messu á íþróttaleikvangi í Sarajevo. Þar minnti hannn áheyrendur sína á þeirra eigin reynslu af hörmungum stríðs. Hann hvatti til þess við mikinn fögnuð áheyrenda að borgarbúar sameinuðust um ákallið: aldrei aftur stríð!

Í upphafi ræðu sinnar sagði páfi:

„Orðið friður kom nokkrum sinnum fyrir í hinum helgu textum sem heyrðum rétt í þessu. Það er öflugt spámannlegt orð! Friður er draumur Guðs, áætlun hans fyrir mannkyn, fyrir söguna, fyrir allt sem skapað er. Og þetta er áætlun sem stöðugt er andmælt af mönnum og hinum illa. Jafnvel á okkar tímum rekst þráin eftir friði og viljinn til að treysta frið á þann veruleika að á líðandi stundu móta mörg hernaðarátök áhrif heim okkar. Þetta er einskonar þriðja heimsstyrjöld sem háð er í bútum og fyrir tilstilli hnattrænnar miðlunar skynjum við andrúmsloft stríðs.

Sumir vilja kveikja og ala á þessu andrúmslofti af ásetningi, einkum þeir sem vilja átök milli ólíkra menningarheima og samfélaga og þeir sem veðja á stríð til að selja vopn.“

Hann hvatti til að „prédika“ ekki aðeins frið – það gerðu oft „hræsnarar og lygarar“ heldur ætti að „skapa frið“ með því að hann yrði þáttur hins daglega lífs, þjónustu og bræðralags. Frið mætti rekja til réttlætis, ekki yfirlýsinga um réttlæti, heldur réttlætis sem birtist í lífi og starfi hvers og eins. Án þessarar víddar og án „sáttar hvers og eins við Guð“ féllum við fyrir siðferðilegri blekkingu.

Í heimsókn sinni hvatti Frans páfi Evrópusambandið opinberlega til að sýna ábyrgð í samskiptum sínum við Bosníu Herzegóvínu, ríkisstjórn landsins hefur sótt um aðild að ESB. Páfi sagði landið „óaðskiljanlega hluta Evrópu“.

Þegar páfi vék að óróanum í heiminum lýsti hann sjálfum sér í Sarajevo sem „pílagríma friðar og samtals“. Hann sagði: „Á þessum stað friðar og jafnvægis milli Króata, Serba og Bosníumanna hefur verið gripið til aðgerða til bæta enn frekar vinsamleg og bróðurleg samskipti milli múslíma, gyðinga og kristinna, þær skipta máli utan þessara landamæra. Þær sanna öllum heimi að samvinna milli manna af ólíku þjóðerni og trúarbrögðum er fær í þágu sameiginlegs, góðs málstaðar, að menningarlegur fjölbreytileiki og hefðir fá þrifist.“

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …