Home / Fréttir / Franco fluttur í nýja gröf

Franco fluttur í nýja gröf

Dalur hinna föllnu er hvílustaður tug þúsunda fallinna hermanna. Sósíalistum þótti ekki við hæfi að gröf Francos væri þar.
Dalur hinna föllnu er hvílustaður tug þúsunda fallinna hermanna. Sósíalistum þótti ekki við hæfi að gröf Francos væri þar.

Líkamsleifar Franciscos Francos, fyrrv. einræðisherra á Spáni, voru fimmtudaginn 24. október fluttar úr grafhýsi sem hann lét reisa í Dal hinna föllnu fyrir utan Madrid í kirkjugarð nær borginni þar sem hann hvílir við hlið konu sinnar.

Það var kosningaloforð ríkisstjórnar sósíalista að flytja kistu Francos á brott úr Dal hinna föllnu þar sem ekki væri við hæfi að fyrrverandi einræðisherra væri sýnd sú virðing að fá að hvíla þar – í grafhýsi sem hann hefði sjálfur látið reisa um minningu sína. Þá hafnaði stjórnin að hann fengi að hvíla í dómkirkju í hjarta Madrid af ótta við að gröfin kallaði öfgamenn til kirkjunnar.

Áratugum saman hefur verið deilt um hvílustað Francos. Ný könnum á vegum blaðs El Mundo sýnir að 43% styðja flutning kistunnar í Mingorrubio-kirkjugarðinn en 32,5% eru því andvígir.

Franco var einræðisherra á Spáni frá árinu 1939 til dauðadags árið 1975.

Spænska þingið samþykkti í september 2018 að gengið yrði til þess verks sem lokið var fimmtudaginn 24. október 2019 eftir að fjölskylda Francos hafði árangurslaust reynt að fá lögin dæmd ógild með málaferlum.

Athöfnin í Dal hinna föllnu var aðeins fyrir fjöllskyldu Francos og þrjá fulltrúa stjórnvalda. Kistan var flutt í þyrlu á milli staða. Sjónvarpað var beint frá atburðinum.

Stjórn sósíalista lagði áherslu á að Franco hvíldi í nýrri gröf fyrir þingkosningarnar 10. nóvember á Spáni.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …