Home / Fréttir / Framkvæmdastjórn ESB vill refsa Pólverjum vegna dómstólalaga

Framkvæmdastjórn ESB vill refsa Pólverjum vegna dómstólalaga

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.

„Pólverjar virða réttarríkið eins mikið og aðrar ESB-þjóðir,“ sagði Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, á Twitter eftir að framkvæmdastjórn ESB sendi miðvikudaginn 20. desember frá sér tilkynningu um að pólska ríkisstjórnin skapaði hættu fyrir lýðræðisleg gildi sambandsins.

Þá sendi pólska utanríkisráðherrann frá sér þessa tilkynningu: „Pólska stjórnin harmar að framkvæmdastjórn ESB hafi hrundið þessu ferli af stað […] þar er í raun um pólitíska en ekki lögfræðilega aðgerð að ræða.“

Ferlið sem nú er hafið til viðvörunar pólskum stjórnvöldum kann að leiða til þess að pólska ríkisstjórnin missi atkvæðisrétt innan ráðherraráðs ESB. Framkvæmdastjórnin telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar ógni sjálfstæði dómstóla landsins.

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði við blaðamenn í Brussel:

„Á innan við tveimur árum hefur töluverður fjöldi laga verið samþykktur – alls 13 – sem ógnar verulega sjálfstæði dómstólanna og þrískiptingu valdsins. Með nýjum dómstólalögum í Póllandi hafa dómstólarnir verið settir undir stjórnmálalega stjórn meirihlutans á þingi. Njóti dómstólar ekki sjálfstæðis vakna alvarlegar spurningar um virka framkvæmd ESB-löggjafar. Við gerum þetta í þágu Póllands og Pólverja.“

Andrzej Duda, forseti Póllands, flutti sjónvarpsávarp nokkrum klukkustundum síðar og sagði að hann hefði staðfest tvenn lög um dómstólana. Fréttaskýrendur segja að deilan vegna Póllands sé alvarlegasta vandamál innan ESB síðan Bretar ákváðu að segja skilið við sambandið í fyrra. Ekkert bendir til annars en pólska ríkisstjórnin ætli að halda fast í stefnu sína.

Framkvæmdastjórnin sendi boð til 27 ríkisstjórna ESB-landanna við hlið Póllands og lagði til að þeir samþykktu að virkja ESB-sáttmála grein sem aldrei fyrr hefur verið beitt, það er 7. gr. sem litið er á örþrifaráð innan ESB eða „beiting kjarnorkuvopna“ eins og það er orðað. „Það er með sorg í hjarta sem við höfum ákveðið að grípa til greinar 7,1,“ sagði Timmermans. „Við eigum þó ekki neinn annan kost vegna málavaxtanna.“

Til að viðvörunin verði gild þurfa 22 af 28 ríkjum ESB að styðja tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Hún telur fullvíst að tillagan hljóti brautargengi.

Alvarlegasta refsingin gegn Pólverjum fellst í að svipta þá atkvæðisrétti innan ESB, þá kann að verða lagt bann við greiðslu úr sjóðum ESB til Pólverja – þeir fá mest fé allra þjóða úr þessum sjóðum.

Piotr Buras, forstöðumaður skrifstofu European Council on Foreign Relations í Varsjá, sagði:

„Ímynd og áhrif Pólverja innan ESB hefur þegar orðið fyrir skaða vegna stefnu ríkisstjórnar PiS [Flokks laga og réttar] þess vegna verða alþjóðlegar afleiðingar tillögu framkvæmdastjórnarinnar takmarkaðar, skaðinn er miklu mikilvægari á heimavelli. Í áróðri stjórnvalda verður þessari ákvörðun líklega lýst sem fjandsamlegri aðgerð erlendra ofríkisafla gegn pólsku lýðræði og fullveldi. Þetta ýtir undir þann boðskap að Pólland sé umsetið virki og að Pólverjar séu sviknir úr vestri.“

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …