
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði fimmtudaginn 1. október að framkvæmdastjórnin hefði hafið málaferli gegn bresku ríkisstjórninni fyrir að hafa brotið gegn brexit-viðskilnaðarsamningnum.
Breska stjórnin hefur nú einn mánuð til að svara formlegu kvörtunarbréfi framkvæmdastjórnarinnar. Er það fyrsta skref málsmeðferðar sem gæti leitt til þess að Bretum yrði stefnt fyrir ESB-dómstólinn í Lúxemburg og dæmdir þar til að greiða þungar sektir.
Að framkvæmdastjórn ESB telji sig knúna til að setja samskipti sín við bresku ríkisstjórnina í þennan lögformlega farveg er talið til marks um hörkuna í samskiptum brexit-viðræðunefndanna sem reyna nú að berja saman fríverslunarsamning sem gildi frá og með næstu áramótum.
Breska þingið samþykkti þriðjudaginn 29. september lög um regluverk á innri markaði Bretlands frá 1. janúar 2021 þegar Bretar segja skilið við ESB-markaðinn og ESB-tollabandalagið.
Breskir ráðherrar hafa staðfest að þessi lög um innri breska markaðinn brjóti gegn viðskilnaðarsamningnum sem Boris Johnson forsætisráðherra ritaði undir í fyrra. Lögin fela því í sér brot á alþjóðalögum.
Ríkisstjórn Johnsons segir að nýju lögin séu „öryggisnet“ sem sé nauðsynlegt takist ekki að gera fríverslunarsamning við ESB og sambandið reyni að setja upp tollhlið milli Bretlands og Norður-Írlands.
Í höfuðborgum ESB-ríkjanna – þeirra á meðal Írlands – er litið á ákvæði samningsins sem vörn gegn því að landamærum verði lokað milli Írska lýðveldisins og Norður-Írlands og leið til að tryggja stöðu friðarsamkomulagsins um Norður-Írland sem kennt er við föstudaginn langa.
Framkvæmdastjórn ESB segir að samþykkt nýju laganna í Bretlandi brjóti gegn 5. grein viðskilnaðarsamningsins þar sem báðir aðilar heita því að framkvæma samninginn „í góðri trú“.
Eftir að neðri deild breska þingsins samþykkti umdeildu lögin fyrir sitt leyti fór málið í lávarðadeildina. Þar er það nú til umræðu.
Stefnt er að því að brexit verði til umræðu í ESB-leiðtogaráðinu 15. október 2020. Embættismenn ESB segja að náist ekki samkomulag við Breta á þeim fundi sé hæpið að unnt sé að staðfesta nokkurt samkomulag fyrir áramót, þá yfirgæfu Bretar sameiginlega markaðinn samningslausir.