
Dimitris Avramopoulos, útlendingamálastjóri ESB, segir að ekki hafi tekist að ná stjórn á neyðaástandinu vegna farand- og flóttafólks í Evrópu. Þeim ríkjum fjölgi sem grípi til hertrar landamæravörslu vegna fólksstraumsins.
Avramopoulos sagði fimmtudaginn 14. janúar að „ástandið versnaði“ og þúsundir manna á flótta undan átökum og fátækt kæmu daglega til Evrópu.
Á fundi í Brussel með ESB-þingmönnum sagði hann að „sífellt fleiri aðildarríki“ tækju upp landamæraeftirlit.
ESB kynnti í september 2015 áætlun um að dreifa 160.000 aðkomumönnum til Grikklands og Ítalíu til ESB-ríkja. Nú er staðan þannig að aðeins 272 einstaklingar hafa sest að í öðrum löndum. Þá hefur einnig dregist að framkvæma stefnu um að sækja flóttamenn beint til landa eins og Tyrklands.
Í liðinni viku sögðu þýsk yfirvöld að þau sæju engan samdrátt í fjölda fólks sem kæmi til Þýskalands og sækti um hæli hvað sem liði tilraunum ESB til að stemma stigu við komu alls þessa fjölda.
Rúmlega milljón manns á flótta frá Mið-Austurlöndum og Afríku komu til Evrópu á árinu 2015. Þýskaland hefur dregið flesta að sér og segja yfirvöld í Berlín að hælisleitendur í landinu séu 1,09 milljón á árinu 2015.
Eftir að Danir hertu landamæraeftirlit sitt 4. janúar boðaði framkvæmdastjórn ESB fulltrúa Danmerkur, Svíþjóðar og Þýskalands til fundar í Brussel. Fulltrúar ríkjanna sögðust vilja standa vörð um Schengen-samstarfið, hins vegar yrði að tryggja virka vörslu á ytri landamærunum og að staðið væri við önnur umsamin skilyrði samstarfsins.
Fyrir utan að dreifa fólki til annarra landa frá Grikklandi og Ítalíu var ákveðið að opna þar 11 ESB-skráningarstöðvar til að hafa betri stjórn á flæði aðkomufólks til landanna. Nú nokkrum mánuðum síðar hafa aðeins þrjár verið opnaðar, tvær á Ítalíu og ein í Grikklandi. Framkvæmdastjórn ESB telur að snemma á þessu ári verði þó tvær til viðbótar opnaðar á Ítalíu.
Heimild: New Europe