Home / Fréttir / Framkvæmdastjórn ESB mælir með samstiga afléttingu

Framkvæmdastjórn ESB mælir með samstiga afléttingu

Ursula von der Leyen
Ursula von der Leyen

Framkvæmdastjórn ESB vill að aðildarríkin standi saman að því að aflétta COVID-19-hömlunum. Miðvikudaginn 15. apríl kynnti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, 14 blaðsíðna áætlun um þetta efni. Hún sagði hömlurnar ekki verða til eilífðarnóns þótt það kynni að taka langan tíma að afmá þær.

Embættismenn ESB telja að efnahagur á evru-svæðinu kunni að dragast saman um 10%, ekkert sambærilegt hafi gerst síðan á þriðja áratug síðustu aldar.

Ursula von der Leyen óttast, stilli ESB-ríkin 27 ekki saman aðferðir sínar við að stíga frá faraldrinum, kunni það að auka spennu á milli þeirra. Engin ein lausn gildi þó fyrir alla.

Hún hvetur til þess að ríkin skiptist á upplýsingum um áform sín en endurtaki ekki sama og við einhliða upptöku landamæraeftirlits þegar gripið var til aðgerða í því skyni að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Ríki ákváðu það einhliða, án vitundar annarra.

Framkvæmdastjórnin segir að þrjú skilyrði verði að uppfylla áður en hömlum sé aflétt: (1) heilbrigðiskerfi einstakra ríkja þoli álagið, (2) smit hafi minnkað og (3) unnt sé að veita viðkvæmum hópum nægilega vernd.

Hafa verði í huga að hætta á nýrri smitbylgju vaxi við hvert skref til frjálsræðis. Þess vegna sé nauðsynlegt að halda uppi ströngu eftirliti og grípa jafnvel til enn harkalegri aðgerða áður en allt fari úr böndunum. Veiran lifi þar til bóluefni finnst og taka verði ákvarðanir í ljósi þess.

Nú er staðan þannig að sum ríki hafa lokað landamærum sínum en önnur leyfa enn alþjóðaflug. Í rúmum helmingi ríkjanna hefur verið lýst yfir neyðarástandi en til dæmis Svíar hafa sett tiltölulega fáar bannreglur. Í Þýskalandi fylgja stjórnvöld sambandslandanna 16 ekki öll sömu reglum gegn veirunni. Í Bæjaralandi hefur til dæmis öllum byggingavöruverslunum verið lokað en þær má hafa opnar í nágrannalandinu Baden-Württemberg.

Skjal framkvæmdastjórnarinnar er ekki binandi heldur er þar að finna leiðbeiningar. Það er á valdi stjórnvalda einstakra ESB-ríkja hvort þau fari eftir þeim eða ekki. Þar er þó hvatt til þess að öll ríkin virki sameiginlega markaðinn og aflétti landamæralokunum. Stjórn heilbrigðismála er enn sem fyrr á valdi hvers ríkis fyrir sig.

Í lok skjalsins skuldbindur Ursula von der Leyen sig og framkvæmdastjórnina til að leggja fram áætlun um hvernig unnt sé að endurræsa efnahagsvél ESB-ríkjanna. Hún segir að ýta verði undir eftirspurn og framleiðslu, hugsanlega með skattalækkunum.

Í næstu viku ræðir leiðtogaráð ESB hugmyndina um að semja evrópska Marshall-áætlun  til að flýta fyrir efnahagslegri endurreisn.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …