Home / Fréttir / Framkvæmdastjórn ESB kynnir tillögur um endurreisn Schengen-samstarfsins

Framkvæmdastjórn ESB kynnir tillögur um endurreisn Schengen-samstarfsins

1029814183

Framkvæmdastjórn ESB birti föstudaginn 4. mars skýrslu þar sem kynnt eru áform hennar um endurreisn Schengen-samstarfsins. Skýrslan eða vegvísirinn ber heitið Back to Schengen. Markmiðið er að í lok 2016 verði öll gæsla á innri landamærum Schengen-svæðisins úr sögunni. Frá september 2015 hafa átta ríkis gripið til landamæragæslu af einhverju tagi. Eftirlitinu er haldið uppi í krafti undantekningarákvæða í Schengen-reglunum.

Markmiðið er að í árslok verði fullt ferðafrelsi án skoðunar á skilríkum við landamæri milli Schengen-landa komið til sögunnar. Eftirlit á ytri landamærum svæðisins verði fullnægjandi, einkum með aðstoð Tyrkja sem greitt verði fyrir samstarfið.

Dimitris Avramopoulos, útlendinga- og innflytjendamálastjóri ESB, sagði að ekki tækist að endurreisa Schengen-samstarfið nema aðildarríkin fylgdu reglum þess. Hann minnti á að ákvörðunin um að dreifa hælisleitendum á ESB-ríkin væri bindandi. Hún hefði verið tekin með auknum meirihluta atkvæða. Ríki ættu ekki annarra kosta völ en að hlíta henni.

Í skýrslunni segir að hverfi Schengen-samstarfið úr sögunni yrðu þjóðir eins og Pólverjar, Hollendingar og Þjóðverjar að greiða ný gjöld sem mundu nema meira en 500 milljónum evra fyrir flutning á þjóðvegakerfi ESB-landanna. Flutningskostnaður Spánverja og Tékka myndi hækka um meira en 200 milljónir evra.

Landamæraeftirlit mundi kosta þá sem vinna handan landamæra 1,7 milljónir evra eða atvinnufyrirtæki þeirra 2,4 til 4,5 milljarða evra vegna tafa við landamæri.

Talið er að fjöldi gistinótta dragist saman um 13 milljón nætur sem þýði 1,2 milljarða evra tap.

Það mun kosta ríki að minnsta kosti 1,1 milljarð evra að fjölga fólki við landamæravörslu.

Í skýrslunni segir að sérfræðingar framkvæmdastjórnar ESB í Grikklandi geti haldið áfram samstarfi við grísk yfirvöld og stofnað til samstarfs við aðra viðkomandi aðila.

Lögð er áhersla á að á öllum skráningasrtöðum við inngöngu á Schengen-svæðið verði um 100% greiningu og skráningu á hverjum einstaklingi að ræða, skráðar upplýsingar verði bornar saman við það sem finna má í gagnagrunnum.

Gert er ráð fyrir að miðvikudaginn 16. mars 2016 leggi Grikkir fram áætlun um hvernig þeir ætli að standa að framkvæmd tillagna framkvæmdastjórnarinnar. Sama dag birti framkvæmdastjórnin upplýsingar um hvernig hún vill að Dyflinnar-reglunum verði breytt í því skyni að skapa samstöðu og sanngjarna skiptingu byrða milli aðildarríkjanna.

Framkvæmdastjórnin hvetur aðildarríkin og Frontex, Landamærastofnun Evrópu, til að hefjast þegar handa í anda tillagna hennar um endurreisn Schengen-samstarfsins.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …