Í fyrsta sinn í sögunni kynnti framkvæmdastjórn ESB miðvikudaginn 7. júní tillögur um sameiginlegan Evrópuher og samhæfingu vopna- og hergagnaframleiðslu í álfunni.
Tillögurnar eru í samræmi við frumkvæði Frakka og Þjóðverja til að styrkja stöðu og öryggi ESB-ríkjanna og stuðla að hagkvæmni. Frederica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, segir að með framtakinu sé einnig blásið nýju lífi í samstarf ríkjanna.
Hvert aðildarríki stendur að baki eigin hlutdeild í kostnaði við framkvæmd tillagnanna en framkvæmdastjórnin segist ætla að leggja árlega fram 1,5 milljarð evra af eigin fjárlögum til rannsóknar og þróunar.
„Við ætlum að nota fjárlög ESB til að styrkja nýsköpunarverkefni með þátttöku að minnsta kosti þriggja fyrirtækja í hverju verkefni frá minnst tveimur löndum,“ sagði Jyrki Katainen, framkvæmdastjóri ESB fyrir störf, vöxt og samkeppnishæfni.
ESB hefur einnig áform um að koma á fót herstjórn fyrir þjálfunarverkefni erlendis til að auðvelda að kalla síðar út bardagasveitir ESB án þess að þær hafi áður tekið þátt í átökum.
Frakkar vilja einnig koma á fót samvinnuhópi ríkja sem hafa áhuga á að standa að hernaðaraðgerðum saman í stað þess að framvegis verði það aðeins stærri ríki sem leggi fram lið til friðargæslu.