Home / Fréttir / Framgöngu íranskra stjórnvalda mótmælt í Teheran

Framgöngu íranskra stjórnvalda mótmælt í Teheran

Námsmenn mótmæla 11. janúar 2019 við háskóla í Teheran.
Námsmenn mótmæla 11. janúar 2019 við háskóla í Teheran.

Mótmælendur fyrir utan háskóla í Teheran kröfðust þess laugardaginn 11. janúar að þeir yrðu látnir sæta ábyrgð sem skutu, að sögn fyrir mistök, niður úkraínska farþegaflugvél aðfaranótt miðvikudags 8. janúar þegar hún hóf sig á loft frá flugvellinum í Teheran.

Aðfaranótt 11. janúar viðurkenndu yfirvöld í Íran að loftvarnaflaug íranska hersins hefði verið skotið á flugvélina. Sá sem var á vakt hefði haldið að þarna væri óvinur á ferð og brugðist rangt við á 10 sekúndum án þess að hafa samband við yfirmenn sína.

„Afsögn er ekki nóg,“ hrópuðu mótmælendur fyrir utan Amir Kabir háskólann og vildu að þeir yrðu dregnir fyrir dómara sem urðu 176 manns að aldurtila með afglöpum sínum.

Heimagerð myndskeið á samfélagsmiðlum sýndu mótmælendur einnig hrópa „svívirðileg“ og áttu þeir þá við írönsk stjórnvöld. Áður en opinberlega var viðurkennt að um flugskeytaárás hefði verið að ræða höfðu írönsk stjórnvöld margsinnis hafnað ásökunum erlendra yfirvalda um að svo væri. Öll framganga íranskra ráðamanna er áfall fyrir marga Írana og syrgir þá.

Amirali Hajizadeh, yfirmaður loftferðadeildar íslamska byltingarhersins, sagði 11. janúar að „öll ábyrgð“ á harmleiknum hvíldi á deild hans.

Hann birtist í ríkissjónvarpi Írans og sagði að við fréttirnar af örlögum farþegavélarinnar hefði hann „óskað að ég væri dauður“.

Frá flaki flugvélarinnar.
Frá flaki flugvélarinnar.

Erkiklerkur Írana Ayatollah Ali Khamenei vottaði fjölskyldum þeirra 176 sem létu lífið „djúpa samúð“ og skipaði hernum að kanna hvað hefði farið úrskeiðis og hver bæri ábyrgð á þessu „sársaukafulla atviki“.

Sænska samgöngustofan tilkynnti föstudaginn 10. janúar að hún hefði lagt bann við beinu flugi Iran Air milli Svíþjóðar og Írans vegna óvissu sem tengdist flugslysinu og öryggi almennra flugvéla.

Sænska utanríkisráðuneytið staðfesti að 17 farþeganna í úkraínsku vélinni sem var á leið frá Teheran til Kænugarðs ættu „búsetu“ í Svíþjóð en 10 þeirra hefðu þar borgararétt.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …