Home / Fréttir / Framganga þjóðarleiðtoga á COVID-19-tímum

Framganga þjóðarleiðtoga á COVID-19-tímum

Angela Merkel og Elísabet II.
Angela Merkel og Elísabet II.

Vegna heimsfaraldursins hafa leiðtogar þjóða um heim allan flutt ávörp til að hughreysta eða leiðbeina borgurum landa sinna. Jafnframt greina álitsgjafar framgöngu þeirra. Hér er stuðst við það sem Melinda Crane, stjórnmálaritstjóri þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle, sagði á dögunum þegar hún svaraði spurningunni: Hvaða gjafir færa Angela Merkel og Elísabet II. okkur en við fáum ekki frá Donald Trump?

Beint í mark

Á fyrstu stigum faraldursins ávarpaði Angela Merkel kanslari þýsku þjóðina sem hún hefur aldrei gert áður nema á nýársdag. Hún sagði að 60% þjóðarinnar fengi veiruna en ríkisstjórnin ætlaði að vernda hana nú á tíma þess versta sem yfir hana hefði gengið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Á einfaldan og skýran hátt hefur kanslarinn síðan farið yfir staðreyndir og skýrt þær, til dæmis nauðsyn þess að fara sparlega með salernispappír og þvo sér um hendur.

Í ávarpi Bretadrottningar, Elísabetar II., horfðist hún í augu við vandann, rofið í samfélaginu, sorgina og fyrirsjáanlega efnahagserfiðleika. Hún fór sömu leið og Merkel en allt aðra en Bandaríkjaforseti, hún skautaði hvorki fram hjá staðreyndum né gaf falsvonir um útgönguleiðir.

Samkennd og fordæmi

Melinda Crane segir að hvorki kanslarinn né drottningin séu þekktar fyrir persónulega hlýju eða nálægð við almenning. Það hafi aukið á áhrifamátt ávarpa þeirra að þær minntu á alvarlega persónulega reynslu; drottningin á ávarp sem hún flutti sem unglingur á stríðsárunum þegar hún ræddi sársaukafullan aðskilnað frá sínum nánustu; kanslarinn þegar hún minnti á að á sínum tíma í Austur-Þýskalandi hefði hún kynnst því að ferðafrelsi væri ekki sjálfsagður réttur, hún vissi því að aðför að friðhelgi einkalífs vekti sárar tilfinningar. Þær létu báðar í ljós þakklæti á einfaldan en einlægan hátt til þeirra sem stofna eigin heilsu og fjölskyldu í hættu með því að veita brýna þjónustu.

Báðar sýndu þær fordæmi: drottningin og Filippus prins fóru í sjálfskipaða sóttkví 19. mars. Í upphafi heimaverunnar fór Angela Merkel í hverfis-kjörbúðina og var tekin mynd af henni þar sem hún var með innkaupakörfu með aðeins einn pakka af salernispappír og nokkrar flöskur af víni. Hún fór síðan í einangrun eftir að hún mældist jákvæð, hún smitaðist við bólusetningu hjá lækni. Þegar þrjár skimanir höfðu sýnt Merkel COVID-19-neikvæða sneri hún aftur til starfa í kanslaraskrifstofunni og lýsti opinskátt hve tveggja vikna einangrunin hefði verið erfið.

Donald Trump færir einkum sjálfum sér lof og þakkir, þó kemur fyrir að hann beri lof á þá sem hann raðar í kringum sig þegar hann kemur fram daglega í Hvíta húsinu í Washington. Stundum lítillækkar hann á hinn bóginn ráðgjafa úr hópi lækna sem standa við hlið hans, skellir skuld á gagnrýnendur sína og segist ekki ætla að fara að varúðarráðum eins og að bera grímu. Á sama fundi og hann lýsti yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum sló hann á herðar nærstaddra eða tók í hendur þeirra.

Melinda Crane segir að ekki eigi að skýra þessa ólíku framkomu leiðtoganna með því að Bandaríkjamenn kunni að meta uppblásið sjálfshól en Evrópumönnum líki betur að talað sé um sjálfan sig á lágu nótunum. Gagnsæi, samkennd og umburðarlyndi í garð annarra séu það sem menn eigi að tileinka sér vilji þeir njóta trúverðugleika og trausts á hættutímum. Þetta eigi ekki síst við þegar þess er krafist af almenningi að hann sætti sig við alvarlegar takmarkanir á frelsi sínu. Traustið sé líklega best til þess fallið að fá fólk til að fara að fyrirmælum.

Virðuleiki

Melinda Crane segir að kanslarinn og drottningin búi yfir virðuleika sem alls ekki prýði forsetann. Hún segir að um virðuleika gildi sama og um staðreyndir, samkennd og fordæmi. Virðuleiki sé smitandi og hann kalli á sambærilegt svar. Sýni leiðtogar sjálfsaga og virðulega framkomu hvetji þeir almenning til dáða. Virðuleg framkoma höfði beint til þeirra sem séu í vafa og hræddir auk þess að gefa almennt tóninn fyrir opinber viðbrögð á hættutímum. Hvort sem tekist sé á við veiruna sjálfa eða ráðist í efnahagslega endurreisn þurfum við öll að hafa hagsmuni samfélagsins í heild að leiðarljósi. Láti einstaklingar eigin hagsmuni ráða, tefja þeir fyrir eða jafnvel spilla fyrir að árangur náist. Það liggi ekki ávallt í augum uppi hvað öllum sé fyrir bestu. Það þurfi upplýsta leiðsögn til að átta á sig á hvert skuli stefnt og hvernig markinu skuli náð.

Melinda Crane lýkur úttekt sinni á þessum orðum: „Þau samfélög eru gæfusöm sem njóta leiðsagnar leiðtoga með slíka hæfileika um þessar mundir.“

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …