
Sósíalistinn François Hollande, forseti Frakklands, tilkynnti í sjónvarpsávarpi að kvöldi fimmtudags 1. desember að hann gæfi ekki kost á sér í forsetakosningunum vorið 2017. Hann er óvinsælasti forsetinn í stjórnmálasögu Fraklands.
Hollande sagði ákvörðun sína tekna af tilliti til „æðri skyldu með hag þjóðarinnar að leiðarljósi“. Hann sagði: „Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér í forsetakosningunum. Ég vildi segja ykkur þetta milliliðalaust. Á komandi mánuðum mun ég alfarið helga mig forystu þjóðar minnar.“
Forsetinn fór mörgum orðum um það sem hann hefði afrekað síðan hann náði kjöri sem forseti árið 2012 og nefndi þá einnig baráttuna gegn atvinnueysi.
„Árangur sést, seinna en ég hefði viljað, en hann sést samt.“
Frá því í síðari heimsstyrjöldinni hefur enginn Frakklandsforseti tekið ákvörðun um að sækjast ekki eftir endurkjöri.
Líklegt er talið að Manuel Valls forsætisráðherra óski eftir umboði sósíalista til að bjóða sig fram sem forseti í prófkjöri sem fram fer í janúar 2017.
Lýðveldissinnar, mið-hægrimenn, hafa valið François Fillon sem forsetaframbjóðanda sinn. Fillon vill lækka skatta og losa um stífa vinnulöggjöf. Hollande vék að Fillon í ávarpi sínu með þessum orðum:
„Ég virði þennan mann og feril hans en ég held að stefna hans vegi að og kunni að ógna samfélagslegri skipan okkar án þess að bæta efnahaginn á nokkurn hátt.“
Fillon svaraði strax og sagði að Hollande hefði „á skýran hátt viðkurkennt skipbrot stefnu sinnar og þess vegna getur hann ekki haldið áfram. Þessum fimm árum [kjörtímabili Hollandes] lýkur í pólitískri óreiðu og niðurbroti.“
Heimild: dw.de