Home / Fréttir / Frakklandsforseti vill þriggja mánaða neyðarástand vegna stríðsins við Ríki íslams

Frakklandsforseti vill þriggja mánaða neyðarástand vegna stríðsins við Ríki íslams

François Hollande kemur til þingfundar í Versala-höll
François Hollande kemur til þingfundar í Versala-höll

François Hollande Frakklandsforseti ávarpaði sameinað þing Frakklands á sérstökum fundi í Versala-höll mánudaginn 16. nóvember og lýsti að flutt yrði frumvarp til laga um þriggja mánaða neyðarástand í Frakklandi eftir hryðjuverkaárásina í París að kvöldi föstudags 13. nóvember.

Frakklandsforseti sagði Frakka í stríði við vígamenn Daesh (Ríki íslams). Hann sagði frönsku ríkisstjórnina hafa óskað eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kæmi saman til að samþykkja tillögu sem staðfesti sameiginlegan vilja til að berjast gegn hryðjuverkum.

Hann sagði Frakka hafa ákveðið að herða hernaðaraðgerðir gegn Daesh. Flugmóðurskipið Charles de Gaulle væri á Miðjarðarhafi og með því að beita afli þess mundi hernaðarmáttur Frakka þrefaldast.

Frakklandsforseti hvatti til þess að stjórnskránni yrði breytt til að auka heimildir stjórnvalda til að grípa til neyðaraðgerða við aðstæður sem væru allt aðrar en þegar núgildandi ákvæði voru samþykkt. „Við erum í stríði, þetta stríð er annars eðlis en fyrri stríð og krefst þess að stjórnlög heimili aðgerðir til að hafa stjórn á hættuástandinu.“

Þá vill forsetin að unnt sé að svipta þá sem sakaðir eru um hryðjuverk frönskum ríkisborgararétti.

Lögreglumönnum og tollvörðum verður fjölgað og rannsóknarheimildir auknar.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …