Home / Fréttir / Frakklandsforseti vill að Evrópa ábyrgist eigið öryggi

Frakklandsforseti vill að Evrópa ábyrgist eigið öryggi

Emmanuel Macron flytur ræðu sína á sendiherrafundinum.
Emmanuel Macron flytur ræðu sína á sendiherrafundinum.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í ræðu mánudaginn 27. ágúst að hann ætlaði að leggja fram nýjar tillögur á vettvangi Evrópusambandsins til að efla öryggi undir merkjum þess, sambandið yrði að hverfa frá því að treysta á mátt Bandaríkjanna.

„Evrópa getur ekki lengur treyst á Bandaríkin vegna eigin öryggis. Það er okkar að ábyrgjast evrópskst öryggi,“ sagði forsetinn í ræðu á fundi með um 250 sendiherrum, þingmönnum og alþjóðamálasérfræðingum sem komu saman til að marka stefnu og störf sín að loknu sumarleyfi.

„Ég vil að hefjum víðtæka endurskoðun á stöðu okkar í öryggismálum með öllum evrópskum samstarfsaðilum okkar, þar á meðal Rússum,“ sagði Macron og boðaði að tillögur sína yrðu nánar kynntar á „næstu mánuðum“.

Fréttaskýrendur minna á að skoða beri ræðuna í ljósi afstöðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til ýmissa ríkja Evrópu í öryggis- og varnarmálum. Trump hefur talað niður til Þjóðverja og látið eins samstarf Bandaríkjamanna innan NATO ráðist af því hve mikið fé aðrar þjóðir leggja af mörkum til samstarfsins í bandalaginu.

Þegar Macron varð forseti í fyrra hét hann umbreytingu á ESB og hann hefur kynnt tillögur um uppskipti innan þess meðal annars með sérstökum fjálögum og fjármálaráherra fyrir evru-svæðið. Tillögurnar hafa hlotið dræmar undirtektir til þessa.

Þriðjudaginn 28. ágúst heldur Emmanuel Macron í þriggja daga ferð til Danmerkur og Finnlands þar sem hann mun leitast við að afla sjónarmiðum sínum um breytingar á ESB stuðnings. Draga má í efa að hugmyndum hans um minni samskipti við Bandaríkin verði vel tekið í Kaupmannahöfn eða Helsinki. Bæði dönsk og finnsk stjórnvöld leggja ríka áherslu á öryggismálasamstarf við Bandaríkjastjórn.

„Við verðum að sýna nýtt frumkvæði, skapa ný bandalög,“ sagði forsetinn. „Frakkar vilja Evrópu sem verndar, jafnvel á tímum þegar öfgahyggja hefur styrkst og þjóðernishyggja vaknað.“

Að því er varðar breytingar á ESB hefur Macron fengið dræmar undirtektir hjá Þjóðverjum sem mestu ráða innan sambandsins. Ummæli hans um aukið hernaðarsamstarf á vettvangi ESB eru hins vegar í takt við það sem Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur nýlega sagt.

Í grein í þýska Handelsblatt í fyrri viku hvatti Maas til þess að Evrópa „axli jafnan hluta ábyrgðarinnar“ og „skapi mótvægi“ gagnvart Bandaríkjunum á tímum kólnandi samskipta Evrópu og Bandaríkjanna.

 

Heimild: AFP

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …