Home / Fréttir / Frakklandsforseti sækir inn í raðir mið-hægrimanna með nýjum forsætisráðherra

Frakklandsforseti sækir inn í raðir mið-hægrimanna með nýjum forsætisráðherra

 

Edouard Philippe
Edouard Philippe

Nýr forsætisráðherra hefur tekið við embætti, Edouard Philippe, 46 ára borgarstjóri fyrir Lýðveldisflokkinn (mið-hægri) í Le Havre. Nýr Frakklandsforseti, Emmanuel Macron, tilnefndi forsætisráðherrann mánudaginn 15. maí.

Edouard Philippe gekk í École nationale de l’administration, stjórnsýsluháskólann, eins og nær allir ráðamenn í frönskum stjórnmálum. Hann hóf stjórnmálaþátttöku í Sósíalistaflokkum á námsárum en færði sig síðan lengra til hægri. Í hópi sósíalista á þessum árum kynntist hann meðal annarra Alexis Kohler sem nú er liðsstjóri Macrons í Elysée-forsetahöllinni.

Árið 2001 gerðist Philippe starfsmaður borgarstjórans í Le Havre og tók við af honum árið 2010. Frami hans í stjórnmálum hófst hins vegar á landsvísu árið 2002 þegar Alain Juppé varð forseti UMP-flokksins (mið-hægri) og réð Philippe sem framkvæmdastjóra flokksins. Frá þeim tíma hafa náin tengsl verið milli þeirra og var Philippe einn af helstu stuðningsmönnum Juppés í prófkjörinu um forsetaembættið meðal mið-hægrimanna.

Litið er á val Emmanuel Macrons á mið-hægrimanni í embætti forsætisráðherra sem staðfestingu á viðleitni hans til að endurnýja frönsk stjórnmál. Markmið Macrons sé að kljúfa fylkingu mið-hægrimanna fyrir þingkosningarnar 11. og 18. júní og fá þá til að kjósa flokk sinn sem hét En marche! en heitir nú La République en Marche – Lýðveldið á ferð. Macron leitast við að höfða sérstaklega til þess hóps mið-hægrimanna sem standa að baki Alain Juppé – juppéistanna.

Eftir að nafn nýja forsætisráðherrans hafði verið kynnt birti Alain Juppé yfirlýsingu þar sem hann sagði að mikill hæfileikamaður hefði verið valinn og færði Juppé honum heillaóskir með þeim orðum að sjálfur mundi hann styðja Lýðveldisflokkinn. Hlytu mið-hægrimenn ekki meirihluta á þingi í kosningunum í júní myndi þjóðin hins vegar ekki skilja ef þeir tækju upp kerfisbundna stjórnarandstöðu. Það yrði að finna leið og aðferð Frakklandi til framdráttar.

Jean-Luc Mélenchon er fyrrverandi forystumaður í franska Sósíalistaflokknum en sagði skilið við hann og bauð sig fram sem forseta vinstra megin við flokkinn undir merkjum eigin hreyfingar: La France insoumise – Óbugað Frakkland. Varð hann fjórði í röðinni eftir fyrri umferð forsetakosninganna.

Mélechon sagði eftir tilnefninguna á Edouard Philippe að nýi forsetinn hefði hallað sér að hefðbundnum stjórnmálaöflum landsins. Gamla liðið sneri aftur. Macron hefði náð undirtökunum með því að innlima hægri vænginn og sósíalistarnir hefðu þegar verið afmáðir. Kjósendum Þjóðfylkingar Marine Le Pen væri ekkert sinnt.

Til að snúast gegn þessu væri aðeins ein leið: að styðja La France insoumie undir forystu sinni. Ekki ætti að færa öll völd í hendur Macrons heldur leyfa annarri fylkingu að dafna í landinu.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …