
Mikill meirihluti þingmanna í neðri deild franska þingsins samþykkti þriðjudaginn 5. maí frumvarp ríkisstjórnarinnar sem veitir mun víðtækari heimildir en áður til að stunda eftirlit og njósnir án þess að leitað sé eftir úrskurði dómara.
Franskar njósna- og öryggisstofnanir fá allt að ótakmörkuðu leyfi til að safna rafrænum gögnum sem verða til við samskipti á netinu og til að hlera farsíma og skoða smáskilaboð. Unnt er að skylda þá sem veita netþjónustu til að leyfa stjórnvöldum að kynna sér efni á pósthólfum viðskiptavina.
„Nýjustu lögin um heimildir fyrir leyniþjónustuna voru frá 1991 þegar farsímar og netið þekktust ekki,“ sagði Manuel Valls forsætisráðherra sem lagði sjálfur fram frumvarpið á þingi í stað þess að innanríkisráðherrann gerði það.
Frumvarpið fer nú til meðferðar í öldungadeildinni.
Á sama tíma og heimildir til leynilegrar upplýsingaöflunar yfirvalda eru auknar í Frakklandi er þróunin önnur á Bandaríkjaþingi þar sem unnið er að lagabreytingum sem miða að því að þrengja heimildir Þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA) til að fylgjast með netsamskiptum.
Valls hét því að svigrúmið við beitingu frönsku laganna yrði „markvisst“ og höfuðáhersla yrði lögð á að vernda franska borgara gegn hryðjuverkum.
Anstæðingar laganna, þar á meðal lögmenn, telja að ekki sé unnt að taka mark á þessu fyrirheiti forsætisráðherrans því að heimildirnar séu svo víðtækar í texta laganna að þeim megi beita á allt og alla að opinberum geðþótta.
Öryggsstofnanir geta gripið til eftirlits ef talið er að sjálfstæði þjóðarinnar, yfirráðum yfir frönsku landi eða vörnum landsins sé ógnað, þá er einnig talað um vörn gegn hryðjuverkum og árásir á stjórnskipun og stofnanir lýðveldisins auk skipulagðrar glæpastarfsemi.