Home / Fréttir / Frakkland: Þjóðfylkingin stærst í héraðsstjórnakosningum

Frakkland: Þjóðfylkingin stærst í héraðsstjórnakosningum

Kosningaplakat með Marine Le Pen
Kosningaplakat með Marine Le Pen

Þjóðfylkingin í Frakklandi undir forystu Marine Le Pen hlaut flest atkvæði í fyrri umferð héraðsstjórnakosninga sunnudaginn 6. desember. Heildarfylgi Þjóðfylkingarinnar er 30% samkvæmt útgönguspám, Lýðveldissinnar (mið-hægri) fá 27% og sósíalistar 23%. Franska sjónvarpið spáði hins vegar Þjóðfylkingunni 27,2%, Lýðveldissinnum 27% og sósíalistar 24%.

Kosið er til 13 héraðsstjórna og hlaut Þjóðfylkingin flest atkvæði í sex kjördæmum. Kjósa þarf aftur í þeim öllum sunnudaginn 13. desember.

Frænkurnar Marine Le Pen (í framboði í héraði í kringum Lille við landamæri Belgíu) og Marion Maréchal Le Pen (25 ára)(í framboði í héraði kringum Nice við landamæri Ítalíu) fengu báðar meira en 40% í kjördæmum sínum. Langmest fylgi allra frambjóðenda í kosningunum.

Franskir fjölmiðlar tala um „sögulegan sigur“ Þjóðfylkingarinnar sem hljóti að gagnast Marine Le Pen í forsetakosningunum árið 2017.

Marine Le Pen sagði þetta „stórkostleg úrslit“. Nicolas Sarkozy, leiðtogi Lýðveldissinna, sagði að ekki yrði um nein „taktísk bandalög“ að ræða í seinni umferð kosninganna í því skyni að fella Þjóðfylkinguna.

Í kosningum til þessa hafa mið-hægrimenn og sósíalistar tekið höndum saman í annarri umferð til að fella frambjóðendur Þjóðfylkingarinnar.

Undir héraðsstjórnir falla almenningssamgöngur, menntamál og atvinnuþróun.

Kosningarnar fara nú fram við neyðarlög í gildi í Frakklandi eftir hryðjuverkaárásina í París föstudaginn 13. nóvember. Kosningaþátttakan var 50,5%.

Viðbrögð François Hollandes Frakklandsforseta við hryðjuverkunum hafa stóraukið vinsældir hans, það er um 30 stig, úr 20% í 50%.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …