Ný forystusveit tekur við í Frakklandi eftir síðari umferð þingkosninganna i Frakklandi sunnudaginn 18. júní. LERM um eins árs gamall flokki Emmanuels Macrons, nýkjörins forseta, fær hreinan meirihluta á þingi. Meirihluti kjósenda ákvað að sitja heima. Sumir líkja umskiptunum í stjórnmálum Frakklands nú við það sem gerðist 1958 þegar fimmta lýðveldið kom til sögunnar eða þeir líta allt aftur til þess sem gerðist í lok stríðsins árið 1945.
La République en Marche (LERM), flokki forsetans, er spáð að minnsta kosti 311 af 577 þingsætum (289 þarf til að hljóta hreinan meirihluta). Samstarfsflokki forsetans, Modem, er spáð minnst 44 þingsætum. Verða þannig að minnsta kosti 355 þingmenn að baki ríkisstjórn forsetans á þingi.
„Þetta er meirihluti til að sameina okkur. Þetta er tækifæri fyrir Frakkland,“ sagði Catherine Barbaroux, formaður LERM-flokksims. Hún fagnaði einnig fjölgun kvenna meðal þingmanna.
„Frakkar hafa kosið von frekar en reiði,“ sagði Edouard Philippe forsætisráðherra. Það kemur í hans hlut að leiða þingmannafjöldann.
Sérfræðingar töldu að endanlegar tölur um kjörsókn mundu sýna að allt að 58% hefðu setið heima. Er það einstakt í Frakklandi að kjörsókn sé svo lítil.
„Kjósendur eru þreyttir, það sést greinilega. Þó má sjá að þeir vilja veita Macron meirihluta, leyfa honum að fara af stað og þeir vænta einnig árangurs,“ sagði Jacques Reland, stjórnmálafræðingur og álitsgjafi.
Nú tekur við fimm ára kjörtímabil forseta og þings og skiptir miklu að hreinn meirihluti sé að baki forsetanum sem hefur heitið margvíslegum umbótum.
Flokkur forsetans La République en Marche (LERM) og Modem leggja áherslu á breytingar á vinnulöggjöfinni til að auka sveigjanleika og vilja einnig umbætur á Evrópusambandinu án þess að hrófla við meginstoðum þess. Þingmeirihlutinn dugar til að koma þessum málum fram.
Andstæðingar forsetans segja að í dræmri kjörsókn felist að fólk vilji takast á við hann og flokks hans á götum úti. Hann hafi ekki það umboð frá þjóðinni sem birtist í þingmannafjöldanum. Hefðbundið er að frönsk verkalýðsfélög efna til útifunda og mótmæla gegn stjórnvöldum telji þau að vegið sé að réttindum launþega með breytingu á vinnulöggjöfinni eða á annan veg.
Þjóðfylkingu Marine Le Pen sem barðist við Macron um forsetaembættið er spáð átta þingmönnum. Marine Le Pen náði í fyrsta sinn kjöri á franska þingið.
Talið er að Lýðveldisflokkurinn (mið-hægri) fái 101 þingsæti en 125 með bandamönnum sínum (voru með 199 eftir kosningarnar 2012) og myndi stærsta stjórnarandstöðuflokkinn og Sósíalistaflokkurinn fái 34 þingsæti en 49 með bandamönnum sínum (voru með 314).
Vinstra flokki Jean-Luc Mélechons er spáð 19 þingmönnum. Talið er að hann myndi þingflokk með kommúnistum sem spáð er 11 þingmönnum.
Atvinnuleysi er nú 9,7% í Frakklandi. François Hollande, sósíalisti og forveri Macrons í forsetahöllinni, lofaði að minnka atvinnuleysið en réð ekki við það. Enginn forseti Frakklands hefur verið óvinsælli hann.
Macron telur að umbylting á vinnumarkaðnum sé lykillinn að því að minnka atvinnuleysið. Hann vill því ganga hratt til verks við að koma umbótum sínum í framkvæmd og nýta sér allar heimildir stjórnarskrárinnar í þeim tilgangi meðal annars að sniðganga þingið ef svo ber undir.
Jean-Claude Mélechon skipaði sér og flokki sínum, La France Insoumise (LFI), til vinstri við sósíalista og ætlar að mynda þingflokk með kommúnistum. Hann sagði eftir kosningarnar að umboð forsetans til umbreytinga væri takmarkað vegna lélegrar kjörsóknar og andstæðingar hans mundu láta að sér kveða utan þings.
Macron vill einnig útrýma spillingu meðal franskra stjórnmálamanna. Hann hefur látið semja lagafrumvarp um þetta efni. Þar er meðal annars litið til hneykslisins sem snerti François Fillon, keppinaut Macrons í forsetakosningunum. Fillon, frambjóðandi Lýðveldisflokksins, lá undir grun um að borga konu sinni af þingfararkostnaði sínum laun fyrir störf sem hún hefði ekki unnið. Vill Macron banna þingmönnum að ráða fjölskyldu sína til starfa fyrir sig á kostnað ríkisins.
Rúmur helmingur af þingmönnum Macrons er nýr á þingi og án nokkurrar stjórnmálareynslu. Talið að allt 40% af þingmanna verði konur á móti 27% á síðasta þingi, meðalaldur þingmanna lækkar frá því sem áður var.