Home / Fréttir / Frakkland: Neikvæðni magnast vegna umbótatillagna Macrons

Frakkland: Neikvæðni magnast vegna umbótatillagna Macrons

 

Frá mótmælagöngu gegn Macron.
Frá mótmælagöngu gegn Macron.

Birtar voru niðurstöður skoðanakönnunar í Frakklandi miðvikudaginn 18. apríl sem sýndu að 58% franskra kjósenda voru neikvæðir í garð Emmanuels Macrons forseta. Nú er um ár frá því að Macron (40 ára) hlaut kjör sem forseti, verkföll og mótmæli setja vaxandi svip á franskt þjóðlíf. Þyrkir mörgum forsetinn hafa færst of mikið í fang með tillögum um uppstokkun á skólakerfinu, réttarkerfinu, vinnulöggjöfinni og kjörum lestarstarfsmanna svo að dæmi séu nefnd.

Ifop-Fiducial könnunin sem nú er birt sýnir í stórum dráttum  sömu niðurstöður og aðrar kannanir þar sem forsetinn nýtur um 40% stuðnings.

Meirihluti svarenda, 57%, var þeirrar skoðunar að Macron stæði við kosningaloforð sín um að draga úr ríkisumsvifum og styrkja samkepnisstöðu þjóðarinnar út á við.

Að kvöldi sunnudags 15. apríl sagði Macron í sjónvarpsviðali að hann gerði það sem forseti sem hann hefði sagt að hann ætlaði að gera. Tilgangur forsetans með því að veita „drottningarviðtal“ var að styrkja tengslin við almenning fyrir ársafmæli sitt í embætti.

Við forsetanum blasir að boðað hefur verið til þriggja mánaða verkfallsaðgerða hjá starfsmönnum SNCF, frönsku járnbrautunum. Þær glíma við háar skuldir, starfsmenn þeirra geta farið snemma á eftirlaun og ýmislegt er í boði til að laða nýja starfsmenn að fyrirtækinu. Vegna boðaðra áforma Macrons um umbætur í rekstri SNCF verður efnt til verkfalla þar af og til næstu vikur. Útlendingar eiga erfitt með að átta sig á stöðu SNCF í frönsku þjóðlífi. Bretar segja að helst megi líkja henni við NHS, opinberu heilbrigðisþjónustuna, í Bretlandi sem er einskonar ríki í ríkinu og næstum „ósnertanleg“ fyrir stjórnmálamenn.

Vegna áforma um breytingar á æðri skólastigum hafa námsenn efnt til mótmæla við háskóla, þar á meðal á ýmsum stöðum í París. Þetta truflar kennslu og vekur ólgu út fyrir veggi skólanna.

Franskir kjósendur kunna betur að meta tök Macrons á utanríkismálum en innanríkismálum. Hann hefur látið verulega að sér kveða til dæmis vegna stríðsins í Sýrlandi og spennunnar í Mið-Austurlöndum.

Um 67% segja að einlæg vörn hans fyrir ESB hafi haft „jákvæð“ áhrif á tengsl Frakka við sambandið og 63% segja að tengslin hafi batnað.

Þá segja 56% að stuðningur forsetans við viðskiptalífið hafi ýtt undir hagvöxt og aukið aðdráttarafl Frakklands fyrir erlenda fjárfesta. Hagtölur um franskan þjóðarbúskap hafa batnað.

Aðeins 27% styðja hærri skatta á eftirlaunaþega og enn færri, 18%, segja að Macron vinni að því að bæta heilbrigðisþjónustuna.

Þegar spurt var hvort Macron áttaði sig á áhyggjuefnum Frakka töldu aðeins 30% svo vera. Vinstrisinnar saka forsetann um að beita sér aðeins fyrir skattalækkunum fyrir auðmenn og kalla hann „forseta ríka fólksins“.

Könnunin var gerð fyrir vikuritið Paris Match, Sud Radio og CNEWS-sjónvarpsstöðina. Þetta var netkönnun og voru 1.200 spurðir dagana 12. til 16. apríl.

 

Heimild: local.fr

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …