Home / Fréttir / Frakkland: Macron nær ekki að róa „gulvestunga“

Frakkland: Macron nær ekki að róa „gulvestunga“

1543415018_000_1b2874

Emmanuel Macron Frakklandsforseta hefur mistekist að slá á 12 daga mótmælabylgjuna sem fer um Frakkland undir forystu „gulvestunga“. Niðurstaða skoðanakönnunar sem birt var miðvikudaginn 28. nóvember sýnir að 66% aðspurðra styðja mótmælaaðgerðirnar og 80% segja aðgerðir sem Macron hefur boðað til að slá á mótmælin „ónógar“.

Upphaf mótmælanna má rekja til væntanlegrar skattahækkunar á bifreiðaeldsneyti. Nafn sitt draga mótmælendur af því að þeir klæðast gulum öryggisvestum. Þeir stöðva umferð og valda öðrum usla. Um helgina beitti lögregla táragasi á Champs Elysée-breiðgötunni í París til að hemja mótmælendur.

Skoðanakönnunin var gerð þriðjudaginn 27. nóvember eftir að Macron boðaði að ekki yrði frekari hækkun eldneytisskatta ef heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði. Hann lofaði einnig að hefja þriggja mánaða samráðsferli til að skapa víðtækari sátt um stefnu í átt að minni loftmengun án þess að sverfa að láglaunafólki.

Forsetinn neitaði hins vegar að falla frá boðaðri hækkun á eldsneytissköttum 1. janúar 2019 og sagði hana óhjákvæmilegan til að draga úr mengun.

 Á fánann hefur verið skráð: Reiði í Frakklandi - Segðu af þér Macron!

Á fánann hefur verið skráð: Reiði í Frakklandi – Segðu af þér Macron!

Yfirbragð mótmælanna hefur breyst í daganna rás. Nú snúa þau ekki aðeins að eldsneytisskattinum heldur hafa íbúar utan þéttbýlis gripið tækifærið til að mótmæla afskiptaleysi stjórnvalda í sinn garð. Þá er spjótum einnig beint að hofmóði Macrons og stjórnar hans.

Edouard Philippe forsætisráðherra sagði þriðjudaginn 27. nóvember að hann vildi hitta sendinefnd mótmælenda. Þeir hefðu margt til síns máls sem ástæða væri til að ræða.

Fjölmiðlar segja að það kunni að reynast erfitt að skipuleggja slíkan fund vegna þess að í raun sé þetta grasrótarhreyfing án skipulagðrar forystu. Tilraun hafi verið gerð til að mynda forystuhóp með kosningu á Facebook. Þar hefðu átta verið tilnefndir en þeim síðan hafnað af öðrum. Samfélagsmiðlar eru samskiptatæki mótmælenda og þar hafa orðið til margir hópar án innbyrðis tengsla þótt málstaðurinn sé í stórum dráttum sá sami. Hreyfingin vill hvorki kenna sig við stjórnmálaflokka né verkalýðsfélög.

Vegna skattahækkana 1. janúar hækkar bensínlíterinn um þrjú evru-sent og dísellítirinn um sex evru-sent (43 og 86 ísl. kr.). Forsætisráðherrann segir að skattarnir haldist óbreyttir þótt eldsneytisverð hækki.

Áður hafði ríkisstjórnin reynt að slá á mótmælin með því að lofa aðstoð við fjármögnun kaupa á sparneytnari bílum og húshitunarbúnaði.

Forsætisráðherrann boðaði jafnframt að lágmarkslaunin, 9,88 evrur á tímann (1.430 ísl. kr.) mundu einnig hækka í samræmi verðbólgu 1. janúar, verðbólga er nú 2%.

Heimild: The Local.fr

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …