Home / Fréttir / Frakkland: Macron kallaður „forseti ríka fólksins“ – hefur undirtökin í stjórnmálunum

Frakkland: Macron kallaður „forseti ríka fólksins“ – hefur undirtökin í stjórnmálunum

Emmanuel Macron Frakklandsforseta var vel fagnað í verkfræðiskólanum Centrale Supélec, fyrir utan París, á dögunum.
Emmanuel Macron Frakklandsforseta var vel fagnað í verkfræðiskólanum Centrale Supélec, fyrir utan París, á dögunum.

Frá því að vera alvaldur forseti sem gæti ekki gert neitt rangt hefur Emmanuel Macron orðið að „forseti ríka fólksins“, forréttindasinna sem gefur auðmönnum gullmola. Þetta er að minnsta kosti það sem þingmenn, sumir hagfræðingar, þáttastjórnendur í sjónvarpi og blöðin byrjuðu að kalla hann fyrir fáeinum vikum. Á þessum orðum hefst grein um stöðu franska forsetans í The New York Times (NYT)fimmtudaginn 2. nóvember. Hér verður stuðst við hana.

Eftir að hafa verið tæpa sex mánuði í embætti hefur Macron verið færður af forsetastallinum á staði sem vekja grunsemdir meðal margra Frakka: inn í stjórnarherbergi stórfyrirtækjanna og skrifstofur bankastjóranna. Hvað eftir annað hefur forsetinn ungi verið kallaður „forseti ríka fólksins“, honum til háðungar.

„Þú fremur ofbeldisverk með stefnu þinni. Þú gengur á hlut fátækra til að bæta hag þeirra ríku!“ segir François Rufin, talsmaður vinstrisinna í flokknum sem kallast Óbugað Frakkland.

Hagfræðingurinn heimskunni Thomas Piketty lýsti í Le Monde Macron sekan um „þunga siðferðilega, efnahagslega og sögulega synd“.

Bandaríski blaðamaðurinn segir að Macron gangi hratt til verks við að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Hann hafi þegar gert miklar breytingar á vinnulöggjöfinni og fjármálastefnu ríkisins. Mótmæli verkalýðsfélaga gegn honum séu máttlaus og hann hafi sundrað samstöðu félaganna.

Honum hafi tekist að skapa eigendum og stjórnendum meiri sveigjanleika við rekstur fyrirtækja sinna. Tillögur hans hafi siglt í gegnum þingið í krafti mikils meirihluta hans þar andspænis sundruðum flokkum til hægri og vinstri.

Vinstrisinninn Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi flokksins Óbugað Frakkland, viðurkenndi í sjónvarpsviðtali um síðustu helgi að um þessar mundir hefði Macron yfirhöndina á stjórnmálavettvangi.

Kannanir sýna að fylgi Macrons sveiflast upp og niður. Hann hefur átt spennuþrungna fundi með verkamönnum en verið vel fangað af elítu-nemendum í verkfræðiskóla fyrir utan París.

Stimpilinn „ vinur ríka fólksins“ hefur einkum fest við Macron vegna tillögu hans um að lækka skatt sem kallast „samstöðuskattur á auðlegð“ á frönsku Impôt de Solidarité sur la Fortune eða I.S.F.

Tekjur ríkisins af þessum skatti eru hlutfallslega lágar. Skatturinn er fyrst og fremst táknrænn í landi þar sem menn líta gjarnan á auðlegð sem merki um óréttlæti eins og það er orðað í The New York Times.

Macron er fyrsti forsetinn sem þorir að hrófla við auðlegðarskattinum síðan hann var innleiddur í annarri mynd árið 1982 af fyrsta sósíalistanum í forsetaembætti fimmta franska lýðveldisins, François Mitterrand.

Þessi skattur hefur að markmiði að ná til þeirra sem eiga eignir yfir 1,3 milljónum evra, 165 milljónum ÍSK. Hann fer stighækkandi eftir því sem eignirnar eru meiri. NYT segir að auðlegðarskattur líkum þessum hafi verið afnuminn næstum alls staðar í heiminum. Bent er á að til dæmis í Svíþjóð hafi afnám skattsins ekki breytt neinu varðandi ójöfnuð, hann hafi hins vegar dregið úr hagvexti.

Auðlegðarskatturinn skilar innan við 2% af heildarskatttekjum franska ríkisins. Macron og hagfræðingar hans telja þó mikilvægt að afnema hann. Þá vill Macron flatan 30% fjármagnstekjuskatt áður gat hann orðið allt að tvöfalt hærri.

Rök Macrons eru einföld: Hann vill losa um fjármagn sem síðan megi nota til fjárfestinga í Frakklandi þar sem þörfin fyrir fjárfestingu er brýn. Hann segist síður en svo vilja stuðla að átökum einnar stéttar gegn annarri. Fyrir sér vaki það eitt að rjúfa stöðnun og kyrrstöðu í frönsku athafnalífi. Hann hafi engin áform um að hverfa frá settum markmiðum sínum.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …