
Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti flugherstöð að morgni fimmtudags 20. júlí í von um að geta áunnið sér traust hersins að nýju eftir að hafa sætt gagnrýni vegna skyndilegrar afsagnar æðsta yfirmanns franska hersins miðvikudaginn 19. júlí.
Forsetinn flutti ræðu í flugherstöðinni í bænum Istres í suðvestur Frakklandi. Fyrstu ræðu yfir hermönnum eftir að Pierre de Villiers (61 árs) mikils metinn hershöfðingi sagði af sér og hvarf úr æðsta embætti hersins vegna ágreinings við forsetann um fjárveitingar til hersins.
Hershöfðinginn sagði á lokuðum fundi þingnefndar að hann sætti sig ekki við áformaðan niðurskurð hjá hernum. Ummælin urðu opinber og forsetinn setti ofan í við hershöfðingjann í ræðu í varnarmálaráðuneytinu þar sem hann sagði: „Ég er „bossinn“.“
François Lecointre hershöfðingi, nýi yfirmaður franska heraflans, var með forsetanum í flugherstöðinni þar sem er að finna hluta kjarnorkuherafla Frakka.
Macron hefur sætt gagnrýni frá stjórnarandstöðunni vegna afsagnar Pierres de Villiers. Heimildarmenn Le Figaro segja að hershöfðinginn hafi fyrst lagt fram afsögn sína mánudaginn 16. júlí en þá hafi forsetaskrifstofan sagt honum að sýna biðlund í 48 tíma á meðan leitað yrði af eftirmanni hans. Miðvikudaginn 19. júlí hafði hann fundist.
Pierre de Villiers kynnti afsögn sína á Facebook með nokkrum vel völdum kveðjuorðum sem menn forsetans kunnu ekki að meta. Christophe Castaner, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði: „Yfirmaður heraflans hefur brugðist trausti með færslu sinni, hann hefur sviðsett afsögn sína.“
Hann sagði einnig: „Brottför hans snertir á engan hátt framgöngu hans í varnarmálanefndinni 12. júlí jafnvel þótt Pierre de Villiers hefði átt að vita að orð hans lækju… Það er framganga hans sem var óviðunandi. Það hefur aldrei áður gerst að yfirmaður heraflans segði skoðun sína á bloggi…“
Í ræðunni í Istres áréttaði 850 milljóna evru niðurskurðinn í ár en sagði að fjárhagurinn yrði rýmri árið 2018. Þá yrði heraflanum umbunað meira en öðrum.