
Síðdegis föstudaginn 16. október réðst 18 ára Tsjetsjeni á sögukennarann Samuel Paty skammt frá framhaldsskólanum þar sem hann kenndi í Conflans-Saint-Honorine, rólegum útbæ um 30 km norðvestur af miðborg Parísar. Árásarmaðurinn gerði kennarann höfðinu styttri í orðsins fyllstu merkingu vegna þess að hann hafði sýnt nemendum sínum skopmyndir af Múhameð spámanni. Hafði hann beðið vegfarendur að benda sér á kennarann.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti fór á staðinn og lýsti verknaðinum sem „íslamískri hryðjuverkaárás“.
Þegar lögregla kom á vettvang til að handsama illvirkjann brást hann við með ofbeldistilburðum og særði lögregla hann með skotvopni. Lést hann af sárum sínum.
Lögregla segir að Samuel Paty hafi frætt nemendur sína um mál- og skoðanafrelsi og notað skopmyndir af spámanninum máli sínu til skýringar. Þetta hafi spurst til foreldra og leitt til kvartana þeirra. Meðal þeirra sem eru í yfirheyrslu vegna rannsóknar málsins eru fjögur skyldmenni morðingjans, tveir bræður og afi hans og amma.
Fyrir utan þetta fólk eru fimm aðrir í haldi, þar á meðal foreldrar nemanda í skólanum þar sem kennarinn starfaði. Höfðu foreldrarnir látið í ljós óánægju með að kennarinn notaði skopmyndirnar við kennslu. Hinir þrír eru félagar morðingjans.
Í janúar 2015 var ráðist inn á ritstjórnarskrifstofur vikublaðsins Charlie Hebdo í París og nokkrir starfsmenn þess myrtir eftir að þar birtust skopmyndir af spámanninum. Leiddi birting þeirra til reiðiöldu meðal múslima. Nú standa yfir málaferli vegna árásarinnar og í september endurbirti blaðið skopmyndirnar. Nokkru síðar gerði ungur Pakistani árás á tvær manneskjur utan við staðinn þar sem ritstjórnarskrifstofur blaðsins voru og særði með kjötöxi.
Persónuskilríki sem fundust á þeim sem lögreglan felldi í Conflans-Saint-Honorine sýndu að hann var 18 ára, fæddur í Moskvu en frá suðurhluta Rússlands, Tsjetsjeníu. Hann hrópaði Allahu Akbar þegar lögregla nálgaðist, ákall sem einkennir þá sem telja sig í heilögu íslömsku stríði.
Í fjölmiðlum segir að ekkert hafi bent til öfgahyggju í fari hans. Franska lögreglan rannsakar málið sem „morð tengt hryðjuverkasamtökum“. Á Twitter mátti sjá mynd af höfði kennarans en hún hvarf fljótt þaðan.
Lögregla sagði óljóst hvort færslan hefði komið frá árásarmanninum en þar mátti lesa hótun við Emmanuel Macron sem kallaður var „leiðtogi heiðingjanna“.
Þegar Frakklandsforseti kom á vettvang sagði hann að kennaramorðið bæri merki um „íslamskt hryðjuverk“. Það fór ekki fram hjá neinum að Macron var brugðið. Hann sagði „alla þjóðina“ vilja vernda kennara og að „andúð við uppfræðslu“ mundi ekki sigra.
Laugardaginn 17. október tilkynnti forsetaembættið að ríkið myndi heiðra minningu Patys án þess að ákveðinn dagur fyrir athöfnina væri nefndur. Vegna COVID-19-faraldursins eru strangar bannreglur í gildi í Frakklandi til að hindra smit milli manna.
Foreldrar nemenda við skólann og samkennarar Patys bera honum mjög gott orð, hann hafi verð vingjarnlegur og tillitssamur. Hann hafi til dæmis sagt við múslima í bekknum áður en hann sýndi skopmyndirnar að þeir hefðu leyfi sitt til að fara úr tímanum þætti þeim óþægilegt að sjá myndirnar. Hann var 47 ára og fjölskyldumaður.
Í fjölmiðlum er sagt frá því að einn þeirra sem lögregla hefur í haldi sé faðir sem sett hafi myndskeið á samfélagsmiðil þar sem hann lýsir hneykslun og reiði yfir að skopmyndir af spámanninum „nöktum“ hafi verið sýndar í bekk dóttur sinnar.
Emmanuel Macron hefur á þessu ári flutt ræður og boðað að ekki verði þola að í Frakklandi búi tvær samhliða „þjóðir“. Múslimar verði að sætta sig við afhelgun fransks þjóðlífs eins og kristnir menn hefðu gert.