Home / Fréttir / Frakkland: Hert öryggisgæsla um François Fillon á lokadögum baráttunnar

Frakkland: Hert öryggisgæsla um François Fillon á lokadögum baráttunnar

François Fillon umkringdur öryggisvörðum.
François Fillon umkringdur öryggisvörðum.

Nú eru aðeins þrír dagar þar til Frakkar ganga að kjörborðinu í fyrri umferð forsetakosninganna. Með vísan til þess sem gerðist í Madrid 11. mars 2011, rétt fyrir þingkosningar þar, þegar efnt var til hryðjuverks sem leiddi til þess að 191 féll við nokkrar sprengingar í járnbrautarlestum, hefur franska lögreglan hert mjög allt eftirlit, einkum í kringum François Fillon, frambjóðanda mið-hægrimanna í Lýðveldisflokknum. Sérfræðingar segja hann gagnrýna öfgamenn múslima harðast allra forsetaframbjóðendanna, harðar en Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, gerir.

Hryðjuverkið í Madrid leiddi til þess að José-Maria Aznar, forsætisráðherra í stjórn mið-hægrimanna, tapaði þingkosningunum. Aznar var eindreginn stuðningsmaður innrásar Bandaríkjamanna í Írak árið 2003. Sósíalistinn José-Luis Zapatero tók við embætti forsætisráðherra og kallaði hann herlið Spánar tafarlaust frá Írak.

Hryðjuverkasamtökin al-Kaída og Daesh leggja áherslu á að félaga sínir haldi sig frá þátttöku í kosningum í ríkjum vantrúaðra en athygli þeirra beinist hins vegar að frambjóðendum sem þeir sér sérstaklega fjandsamlega. „George Bush er okkar frambjóðandi,“ sagði einn frammámanna íráskra vígamanna við blaðamann Le Figaro árið 2004. „Sigri Bush getum við örugglega haldið stríði okkar áfram.“

Í Le Figaro sagði miðvikudaginn 19. apríl að það vekti enga undrum meðal sérfræðinga í málefnum íslamskra víga- og öfgamanna í Frakklandi að öfgafullir íslamistar beindu spjótum sínum sérstaklega að François Fillon. Hann hafi kveðið fastast að orði um nauðsyn andstöðu gegn öfgahópunum súnníta meðal múslima. Hann verji einnig af mestum þunga rétt kristinna manna í Mið-Austurlöndum. Þá sé hann ekki andstæðingur Hezbollah, bardagasveita shíta í Líbanon, sem séu eitur í beinum vígamanna súnníta.

Í Le Figaro segir að það veki undrun að liðsmenn Daesh hafi undanfarna mánuði ekki sagt neitt um frönsku forsetakosningarnar. Eina sem megi finna um þær í boðskap Daesh sé vísan til mótmæla á vegum Þjóðfylkingar Marine Le Pen, gæfi það til kynna að hún væri skotmark vígamannanna. Annað hefur ekki birst. Hafa beri í huga að áróðursvél Daesh hafi misst marga af mönnum sínum vegna árása alþjóðlegra samstarfsaðila á samtökin.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …