Home / Fréttir / Frakkland: Hart verður barist milli Le Pen og Macrons

Frakkland: Hart verður barist milli Le Pen og Macrons

Marine le Pen og Emmanuel Macron

Stjórnmálaskýrendur eru sammála um að aldrei fyrr hafi líkur á því að þjóðernissinni frá hægri verði kjörinn forseti Frakklands eins og nú. Emmanuel Macron forseti fékk þann andstæðing í seinni umferð forsetakosninganna sem hann vildi, Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðhreyfingarinnar. Andstaða til hægri og vinstri auðveldar Macron að safna liði gegn henni.

Skoðanakönnun sem gerð var að kvöldi fyrri kjördagsins, 10. apríl, sýnir að 51% styðja Macron en 49% Le Pen í seinni umferðinni. Úrslitin kunna að ráðast af kosningaþátttökunni en um 35% kjósenda sátu heima 10. apríl. Macron verður að sannfæra þá um að koma og styðja sig sunnudaginn 24. apríl.

Þegar Marine Le Pen fagnaði úrslitum að kvöldi 10. apríl var franski fáninn einn við hún til vinstri við hana á sviðinu. Síðar um kvöldið þegar Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti sigurræðu sína voru tveir fánar til vinstri við hann, sá franski og Evrópusambandsins. Þetta minnti áhorfendur á að Le Pen hefur horn í síðu ESB en Macron nefnir Evrópu eiginlega jafnoft í ræðum sínum og Frakkland.

Macron fékk 27,6% atkvæða í fyrri umferðinni en Le Pen 23,4%. Þau standa nú tvö gegn hvort öðru en upphaflega buðu 12 sig fram til forseta. Úrslitin eru túlkuð á þann veg að það verði minni munur á milli þeirra í annarri umferðinni 24. apríl en í kosningunum 2017 þegar Macron fékk 66,1% atkvæða en Le Pen 33,90%.

Tvísýnn bardagi

Nú hefjast tvær vikur þar sem Emmanuel Macron og Marine le Pen berjast til þrautar. Hann er sakaður um að ganga of sigurviss til baráttunnar. Fyrir kosningarnar 10. apríl efndi Macron aðeins einu sinni til stórs fundar. Hann þótti almennt sýna kjósendum kuldalegt viðmót.

Marine le Pen valdi allt aðra og vingjarnlegri stefnu gagnvart kjósendum. Hún fór víða og gladdi gamalmenni og börn. Öll framkoma hennar hefur tekið stakkaskiptum, stefnan er sett fram á mildari hátt en áður auk þess sem inntak hennar hefur tekið á sig nýjan svip, til dæmis i garð ESB.

Stjórnmálaskýrendur segja að Le Pen hafi næstum eins og með kraftaverki tekist forða baráttu sinni og framboði frá eyðileggingu vegna náinna samskipta hennar við Vladimir Pútin Rússlandsforseta og þá í Rússlandi hans sem áður fyrr lánuðu henni fé til að kosta kosningabaráttu hennar í Frakklandi.

Nú velur Le Pen þann kost að bjóða úkraínska flóttamenn velkomna til Frakklands og útlendingaóvild setur ekki lengur fyrri svip á kosningastefnu hennar. Í stað þess að skamma útlendinga og innflytjendur fer hún mörgum orðum um hvernig hún ætlar að bæta kjör vinnandi Frakka og eftirlaunaþega.

Hún hefur rætt við blaðamenn á mjúku nótunum um líf einstæðrar móður, hvernig eigi að öðlast réttindi eins og hún til að stunda kattarækt og hvernig sé að hefja búskap með æskuvinkonu sinni Ingrid eftir að upp úr slitnaði með henni og Louis Alliotm flokksbróður hennar og sambýlismanni í tíu ár.

Blaðamenn segja að Marine Le Pen sé mun betur á sig komin núna en í kosningabaráttunni fyrir fimm árum þegar hún virtist úrvinda af þreytu og stuðningsmennirnir töldu hana heyja sinn síðasta kosningaslag um forsetahöllina.

Almennt er litið þannig á að kosningabarátta Le Pen hafi verið betur skipulögð en barátta Emmanuels Macrons. Þar fyrir utan naut Macron vafans sem lítt þekktur árið 2017 en nú situr hann uppi með 5 ára ábyrgð á forsetaembættinu. Valdatíð hans hefur ekki alltaf verið dans á rósum.

Hann þykir þreytulegur og hefur aðeins gránað í vöngum. Efnahagur þjóðarinnar hefur batnað undir hans stjórn og atvinnuleysi minnkað en svonefndir gulvestungar stofnuðu til uppþota, hryðjuverk voru unnin í Frakklandi, deilt er um tök hans á COVID-19-faraldrinum og nú geisar stríð sem leiðir til verðbólgu, óvissu og ótta um framtíðina.

Macron reynir að sannfæra kjósendur um að keppinautur hans muni aðeins kljúfa þjóðina enn frekar. Nefnir hann sem dæmi áform Le Pen um að gera refsivert að konur beri slæðu fyrir andlitinu á götum úti. Á alþjóðavettvangi verði Le Pen til þess að auka öryggisleysi meðal annars ætli hún að draga Frakka út úr hernaðarsamstarfinu innan NATO.

Mélenchon fulltrúi vinstri aflanna

Þriðji í röð frambjóðendanna 12 er frambjóðandinn lengst til vinstri, Jean-Luc Mélenchon (70 ára) með 21,95 %. Það má segja að mjótt hafi verið milli hans og Le Pen en þó nóg til þess að nú standa vinstrisinnaðir Frakkar frammi fyrir því að skila auðu eða velja á milli Macrons og Le Pen. Í ræðu á kosningahátið með fylgismönnum sínum endurtók Mélenchon fjórum sinnum að þeir mættu alls ekki kjósa Le Pen í seinni umferðinni en hann hvatti þá hins vegar ekki til að kjósa Macron.

Í kosningabaráttunni lofaði ofur-vinstrisinninn kjósendum sínum „sögulegu augnabliki“ þegar atkvæðin yrðu talin. Kosningagreinendur tölu Mélenchon eina frambjóðandann sem gæti náð óvæntum árangri á lokadögum kosningabaráttunnar og þar með útiloka samskonar lokaslag og varð 2017.

Flokkur Mélenchons, Óbugað Frakkland [La France Insoumise] er óumdeilur forystuflokkur franskra vinstrisinna að lokinni þessari fyrri umferð forsetakosninganna. Hann fékk tvisvar sinnum meira fylgi en sameiginlegt fylgi fimm annarra flokka sem teljast vinstra megin við miðjuna: Græningja frambjóðandi Yannick Jadot, Sósíalista Anne Hidalgo, Kommúnistaflokksins frambjóðandi Fabien Roussel, Ný-andkapitalista frambjóðandi Philippe Poutou Verkalýðsbaráttunnar frambjóðandi Nathalie Arthaud.

Enginn þessara fimm vinstri flokka fékk 5% atkvæða eða meira sem er skilyrði til að ríkið greiði kostnað flokks eða frambjóðanda við kosningabaráttuna.

Jean-Luc Mélenchon sagði skilið við Sósíalistaflokkinn árið 2008. Hann kom sterkur frá forsetakosningunum 2017 þegar hann naut stuðnings Kommúnistaflokksins auk síns eigin flokk. Mélenchon hefur hins vegar ekki viljað eiga neitt formlegt samstarf við aðra vinstri flokka og alls ekki stuðlað að sameiningu þeirra. Hann vill engar málamiðlanir, annaðhvort styðji flokkar stefnu hans undir heitinu: Sameiginleg framtíð [L’Avenir en commun] eða ekkert samstarf kemur til greina.

Afstaða Mélenchons í utanríkismálum skapar öðrum samstarfsvanda við hann. Þar sem íhlutunarvald Frakklandsforseta í utanríkismál er meira en almennt þekkist um þjóðhöfðingja þurfa frambjóðendur til embættisins að hafa málaflokkinn sæmilega á valdi sínu. Vinsamleg afstaða Mélenchons til ráðamanna í Moskvu árum saman og andstaða hans við stjórnvöld í Úkraínu varð honum fjötur um fót vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Eftir að hún hófst reyndi Mélenchon að endurskilgreina afstöðu sína en orð hans dugðu skammt því að það sem hann sagði vegna innlimunar Rússa á Krímskaga árið 2014 eltir hann.

Nú velta menn fyrir sér hvort Mélenchon ætli að leiða flokk sinn í frönsku þingkosningunum í júní. Í kosningabaráttunni nú sagðist hann berjast í síðasta sinn. Ræðu hans eftir kosningarnar 10. apríl túlka menn sem kveðjuræðu hans þótt enginn viti fyrir víst hvað hann hyggst gera.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …