Home / Fréttir / Frakkland: Harka hleypur í deilur um útlendingamál

Frakkland: Harka hleypur í deilur um útlendingamál

Emmanuel Macron
Emmanuel Macron

Franska ríkisstjórnin kynnti miðvikudaginn 21. febrúar nýtt frumvarp til útlendingalaga og sæta ákvæði þess gagnrýni réttindasamtaka fyrir að vera of harkaleg. Ríkisstjórnin segir að frumvarpið einkennist af „fullkomnu jafnvægi“.

Frumvarpið gerir refsivert að fara ólöglega inn í Frakkland. Þá eru ákvæði sem heimila að hraða brottvísun svonefnds „efnahagslegs farandfólks“. Ríkisstjórnin segir að verði frumvarpið að lögum verði auðveldara að greina á milli raunverulegra flóttamanna og þeirra sem koma til að njóta betri lífskjara í Frakklandi.

„Það er gott jafnvægi í lögunum, þau eru fyrst og fremst í samræmi við evrópsk lög, það er óhjákvæmilegt að í löndum eins og Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Hollandi og Svíþjóð gildi samskonar reglur,“ sagði Gerard Collomb, innanríkisráðherra á blaðamannafundi.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að í stjórnarstefnunni felist að skapa jafnvægi milli „skilvirkni“ og „mannúðar“. Deilurnar vegna útlendingastefnu stjórnar forsetans eru engu að síður harðari en flest annað síðan hann var kjörinn fyrir tæpu ári.

Til að hraða afgreiðslu hælisumsókna er frestur til að leggja þær inn styttur úr 120 dögum í 90 daga. Þá er fresturinn til að áfrýja höfnun á umsókn styttur úr 30 dögum í 15 daga. Gert er ráð fyrir að lengja tímann sem unnt er að hafa hælisleitendur undir umsjón yfirvalda í sérstökum búðum úr 45 dögum í 90 daga. Í Bretlandi og Þýskalandi er heimilt að hafa hælisleitendur allt að 18 mánuði í haldi.

Til að mótmæla stefnunni að baki frumvarpinu hefur þegar komið til aðgerða farandfólks með stuðningi námsmanna í háskólabyggingum í borgunum Nantes, Grenoble, Lyon og París. Efnt hefur verið til verkfalls lögfræðinga og annarra starfsmanna við dómstóla í hælismálum. Hægri menn segja ekki gengið nógu langt til að stöðva straum innflytjenda en vinstrisinnar segja of langt gengið á rétt innflytjenda. Innan flokks Macrons er hart tekist á um málið, fyrsti stór ágreiningurinn síðan hann náði völdum í fyrra.

Gagnrýnendur Macrons frá vinstri segja hann sýna meiri hörku í útlendingamálum en forveri hans Nicolas Sarkozy. Þetta sjáist af því sem birtist í skjölum frá forsetanum þótt Sarkozy hafi stundum kveðið fastar að orði í ræðum sínum.

Skýringu á hörku Macrons má meðal annars finna í niðurstöðum kannana sem sýna að Frakkar vilja aukna landamæravörslu.

Gabriel Bristow, aðgerðasinni búsettur í París, segir á vefsíðu breska blaðsins The Guardian fimmtudaginn 22. febrúar að ekki eigi að leita skýringa á afstöðu Macrons í könnunum eða kosningastefnu heldur heldur eigi hún rætur í sannfæringu hans.

Þegar litið sé á sögu frjálslyndra stjórnarhátta megi greina gamalgróna og skarpa línu milli þeirra sem fá notið ávaxta frelsis og jafnaðar og hinna sem fá það ekki. Með útlendingalagafrumvarpinu skipi Macron sér í hóp þeirra sem nýta frjálslyndi til að tryggja sér sérréttindi. Hann gangi þannig gegn þeirri ímynd sem hann vilji sjálfur draga upp af „endurnýjuðu“ Frakklandi. „Ekki er unnt að leiða allan heiminn til nýs tíma frjálslyndis um leið og maður refsar farandfólki og flóttamönnum í eigin bakgarði,“ segir Bristow.

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …