Home / Fréttir / Frakkland: Gyðingahatur setur svip á gulvestunga

Frakkland: Gyðingahatur setur svip á gulvestunga

Alain Finkielkraut í París laugardaginn 16. febrúar.
Alain Finkielkraut í París laugardaginn 16. febrúar.

Þátttakendur í mótmælum gulvestunga í Frakklandi sæta þungri gagnrýni fyrir gyðingahatur eftir að þeir gerðu hróp að heimspekingnum og rithöfundinum Alain Finkielkraut laugardaginn 16. febrúar. Lögregla varð að verja hann fyrir árásum mótmælenda í París.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lýsti vanþóknun á framkomu mótmælendanna. Hann sagði á Twitter:

„And-gyðinglegu svívirðingarnar sem hann hefur mátt þola stangast þvert á við það sem við erum og það sem gerir okkur að mikilli þjóð. Við munum ekki þola þetta.

Alain Finkielkraut, sonur pólskra innflytjenda sem settist í frönsku akademíuna, er ekki aðeins í fremstu röð bókmenntamanna heldur tákn þess sem lýðveldið leyfir öllum.“

Nokkrir mótmælendur hrópuðu: „Skítugi Zíonisti“, „Við erum þjóðin“ og „Frakkland er okkar“. Má sjá þetta á myndbandi sem Yahoo!News birti.

„Ég fann fyrir djúpstæðu hatrinu og því miður ekki í fyrsta sinn,“ sagði Finkielkraut (69 ára) við Journal du Dimanche.

„Ég hefði orðið hræddur hefði lögreglan ekki verið á staðnum, blessunarlega voru þeir þarna,“ sagði hann við blaðið og bætti við að ekki hefðu allir í hópi mótmælenda sýnt honum óvild. Einn þeirra hefði meira að segja hvatt hann til að setja á sig gult vesti og slást í hópinn, annar hefði borið lof á verk hans.

Í upphafi lýsti Finkielkraut stuðningi og samúð með gulvestungum en í samtali við Le Figaro laugardaginn 16. febrúar gagnrýndi hann forystumenn mótmælanna og sagði að hrokinn hefði farið úr einu liði í annað.

Ummæli hans í viðtalinu vöktu reiði margra en stuðning annarra. Christophe Castaner innanríkisráðherra sagði fordæminguna á gyðingum „einfaldlega óþolandi“. Laurent Wauquiez, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Lýðveldissinna (mið-hægri), sagði mótmælendurna „algjör fífl“.

Ian Brossat, oddviti franska Kommúnistaflokksins í komandi ESB-þingkosningum, sagði: „Við getum hatað hugmyndir Finkielkrauts … ekkert réttlætir að ráðist sé á hann sem gyðing.“

Almennt er Finkielkraut talinn standa með ráðandi öflum í Frakklandi. Hann tók árið 2016 sæti í frönsku akademíunni sem stendur vörð um franska tungu.

Gyðingar hafa um nokkurra ára skeið talið að sér sótt í Frakklandi og margir þeirra hafa flutt þaðan til Ísraels. Undanfarið hefur mátt sjá fleiri and-gyðingleg skemmdarverk og veggjakrot. Hefur þetta ýtt undir ótta við hatursglæpi gegn gyðingum.

Fimmtudaginn 14. febrúar birtu fjórtán franskir stjórnmálaflokkar sameiginlega áskorun gegn gyðingahatri eftir að innanríkisráðuneytið skýrði frá því að á árinu 2018 hefðu and-gyðingleg brot aukist um 74%.

Mótmæli gulvestunga hófust 17. nóvember 2018 og beindust gegn sköttum á eldsneyti. Þau hafa síðan þróast yfir í víðtækari andstöðu gegn ríkisstjórninni auk þess sem brotist hefur fram hatur á Emmanuel Macron sem hjá nokkrum hefur á sér and-gyðinglegan blæ með vísan til fyrri starfa hans hjá Rothschild-bankanum.

 

Heimild: local.fr.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …